Upplýsingafundirnir blásnir af

Ljósmynd: Lögreglan.

Nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti með margvíslegum tilslökunum, enda sumarið gengið í garð og fá smit ef nokkur þessa dagana. Í dag hafa 46,9% íbúa Íslands (16 ára og eldri) verið bólusettir og fleiri bætast við í þessari viku.

Vegna þessa hafa almannavarnir ákveðið að uppfæra tölulegu síðuna á covid.is sjaldnar en hefur verið sl. ár, eða á mánudögum og fimmtudögum (föstudegi í þessari viku vegna 17.júní sem er á fimmtudaginn).

Frá 1.júlí verða tölur uppfærðar einu sinni í viku eða á fimmtudögum. Ekki verða gefnar bráðabirgðatölur eins og gert hefur verið um helgar þegar vefurinn hefur ekki verið uppfærður.

Jafnframt hefur verið ákveðið að halda ekki upplýsingafund í þessari viku eða næstu vikur, nema sérstök þörf verði á.