Forsætisráðherra hefur vísað máli vegna ætlaðs upplýsingaleka frá Seðlabankanum til RÚV í aðdraganda húsleitar hjá Samherja árið 2012 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem lekinn kann að fela í sér refsivert brot.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2, en þar var vísað til bréfs forsætisráðuneytisins til lögreglunnar. Rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans leiddi í ljós að þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, var í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í rúman mánuð áður en ráðist var í húsleitina 27. mars 2012. Frétta- og myndatökumenn RÚV voru mættir við skrifstofur Samherja áður en húsleitin hófst.
Í byrjun mars beindi Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis því til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, að hann teldi ástæðu til að óska eftir nánari upplýsingum frá Seðlabankanum um meinta upplýsingagjöf til fréttastofu RÚV í aðdraganda húsleitar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í húsakynnum Samherja. Hann skýrði þingmönnum frá þessu á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í fréttum Stöðvar 2, að nú sé í fyrsta sinn komin formleg viðurkenning á samskiptum RÚV og Seðlabankans. Það að forsætisráðherra vísi þessu máli til lögreglu sýni alvarleika málsins.
Sigurgeir Brynjar Kristinsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, hefur margoft sagt opinberlega að rannsaka þurfi tengsl Ríkisútvarpsins og Kastljóss við yfirmenn Seðlabankans þegar kemur að gjaldeyriseftirliti bankans og fjölmiðlaumfjöllun um meint brot Samherja og Vinnslustöðvarinnar.
Hann fjallar um fréttir kvöldsins á fésbókinni í kvöld og spyr hvort Kastljós ætli enn að standa við fréttir sínar.
„Stendur Kastljós enn við umfjöllun sína? Hvar eru Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson núna sem vörðu sig með blaðagreinum í Morgunblaðinu í vetur? Hvar er Páll Magnússon fyrrverandi útvarpsstjóri sem sagði ekkert athugavert við vinnubrögð Kastljóss í þessu máli í Morgunblaðsgrein síðastliðinn vetur?“ segir hann.