„Ég er mjög ánægð með þennan áfanga til að auka gagnsæi og upplýsingafrelsi. Með þessum frumvörpum stígum við mikilvægt skref í átt að gagnsærri stjórnsýslu þannig að Ísland verði í fremstu röð varðandi reglur á þessu sviði. Breytingarnar fela í sér útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga til dæmis hvað varðar stjórnsýslu, Alþingi og dómstóla en með lögunum er líka lögð ríkari kröfur á herðar stjórnvöldum til að tryggja betur aðgengi almennings að upplýsingum, “ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en Alþingi hefur samþykkt frumvörp hennar um breytingar á stjórnsýslu- og upplýsingalögum.
Frumvörpin voru unnin í nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem forsætisráðherra skipaði í mars 2018.
Nýr X. kafli bætist við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Kaflinn hefst á yfirlýsingu um að opinberir starfsmenn hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði sem tengjast starfi þeirra svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðar- og hollustuskyldur standa því ekki í vegi. Markmið kaflans er svo að mæla fyrir með skýrum hætti til hvaða upplýsinga þagnarskylda tekur og um framkvæmd hennar. Loks eru gerðar breytingar á þagnarskylduákvæðum 80 lagabálka í því skyni að skýra og samræma framkvæmd þagnarskyldu í íslenskum rétti.
Breytingar á upplýsingalögum, nr. 140/2012, koma úr ýmsum áttum en eiga það sammerkt að hafa það markmið að styrkja upplýsingarétt almennings. Upplýsingalög ná nú yfir þá hluta starfsemi Alþingis og dómstóla sem eiga mest skylt við stjórnsýslu og hert er á skyldu ráðuneyta til að birta upplýsingar um mál sem þau hafa til meðferðar. Komið er á fót starfi ráðgjafa stjórnvalda á sviðinu sem er bæði ætlað að aðstoða borgara við framsetningu upplýsingabeiðna og stjórnvöld við að afgreiða þær.