Uppnám á þingi við upphaf útlendingaumræðu: Hótaði að stökkva niður af þingpöllum

Uppnám varð við upphaf umræðu um lagafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um útlendingamál og hælisleitendur sérstaklega, á þingi í dag. Ráðherra hafði nýhafið framsögu sína þegar hópur mótmælenda, af erlendum uppruna og enskumælandi, hóf háreisti á þingpöllum. Einn mótmælandi stökk yfir svalahandrið þingpalla og gerði sig líklegan að stökkva niður í þingsalinn þegar þingvörður náði að stöðva hann og halda þar til liðsauki barst. Kallaði hann ókvæðisorð á ensku, að sögn sjónarvotta.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, gerði þegar fimm mínútna hlé á þingfundi, enda var þingmönnum og starfsfólki mjög brugðið yfir þessum atburði. Það hlé var svo framlengt einu sinni, en ráðherra tók svo aftur til máls á fimmta tímanum.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem tók myndina með þessari frétt úr þingsal, segir: „Hælisleitendur gerðu aðsúg, hróp og köll af þingpöllum.“