Uppreisn með vinstri flokkunum: Mótmæli ef til vill rangt orð

Frá fundi utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna í Washington á dögunum.

„Við erum ekki að mótmæla komu utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, eins og komið hefur fram annarsstaðar, heldur viljum við þrýsta á íslensk stjórnvöld um að beita sér gegn mannréttindabrotum gegn börnum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó,“ segir Kristófer Alex Guðmundsson, forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar í samtali við Viljann.

Fundurinn er áætlaður kl. 16 á Austurvelli, en það gæti breyst í dag, þegar þau fá upplýsingar um hvar fundur Pompeo með stjórnvöldum verður haldinn, segir Kristófer. 

Hann segir mótmæli e.t.v. vera rangt orð, um sé að ræða útifund til að sýna samstöðu með börnunum og reyna að fá íslensk stjórnvöld til að ræða þessi mál við Pompeo. „Við ætlum að afhenda áskorun þessa efnis eins og við gerðum í utanríkisráðuneytinu í gærmorgun og við munum afhenda forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur samskonar áskorun á morgun,“ segir Kristófer Alex, en hann segir Uppreisn hafa átt frumkvæði að þessu, og hafi haft samband við fulltrúa allra ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna vegna málsins.

Frá vinstri: Vignir Árnason, Ágúst Valves, Elva Hrönn Hjartardóttir, Nikólína Hildur Sveinsdóttir, Kristófer Alex og Diljá Einarsdóttir (aðstoðarmaður utanríkisráðherra) þegar áskorunin var afhent í gær.

Allar ungliðahreyfingarnar sem taka þátt hafi síðan unnið í sameiningu að skipulagningunni.

Ungliðahreyfingar vinstri flokkanna með í skipulagningunni

Þegar Viljinn spurði hann hversvegna Uppreisn stilli sér upp með ungliðahreyfingum vinstri flokkanna á þessum útifundi og við gerð áskorunarinnar, þar sem að Viðreisn segist vera frjálslyndur flokkur, kveðst hann ekki getað svarað því hversvegna ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafi ekki viljað vera með, því þurfi þau að svara sjálf, en ungliðahreyfingar Miðflokksins og Flokks fólksins séu enn ekki til með formlegum hætti.

„Við erum hreyfing sem viljum berjast fyrir mannréttindum barna og erum óhrædd við að skora á stjórnvöld. Það sem við eigum sameiginlegt með þeim hreyfingum sem taka þátt með okkur er að styðja mannréttindi barna, og tengist ekki vinstri – hægri pólitík.“