Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að samtökin telja að þátttaka hérlendra raforkufyrirtækja í upprunaábyrgðum orki verulega tvímælis og grafi undan ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku.
Í greiningunni er samantekt á þeirri gagnrýni sem samtökin hafa fram að færa hvað þetta varðar.
Í greiningunni er þeirri spurningu svarað játandi hvort upprunaábyrgðir hafi áhrif á markaðssetningu erlendis. Samtök iðnaðarins telja að með sölu á upprunaábyrgðum sé verið að fórna mun meiri hagsmunum fyrir minni.
„Sala upprunaábyrgða inn á Evrópumarkað skerðir ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegra orkugjafa og ímynd íslensks atvinnulífs. Íslensk stjórnvöld hafa um áratuga skeið markaðssett Ísland sem land hreinna orkugjafa, og gera enn á ýmsum vettvangi, þrátt fyrir að kerfi upprunaábyrgða kunni að standa í vegi fyrir slíkum fullyrðingum,“ segir á vef Samtaka iðnaðarins.
Tekjur íslenskra raforkufyrirtækja af sölu upprunaábyrgða eru um einn milljarður króna á ári og telja Samtök iðnaðarins það ekki mikinn ávinning í stóra samhenginu og í samanburði við hreinleikaímynd Íslands er viðkemur raforku.
„Sala upprunaábyrgða hefur það í för með sér að raforkubókhald Íslands breytist þannig að hér mætti ætla að upprunu raforku sé 55% jarðefnaeldsneyti, 34% kjarnorka og einungis 11% endurnýjanleg orka,“ segir þar ennfremur.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.