Upptökur á Klaustri skipulagðar: Alvarlegt brot og lygi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Nú hefur fengist staðfest að mál sem tröllreið lengi fjölmiðlaumræðu eftir að hópur þingmanna var hleraður byggðist allt á lygi og alvarlegu afbroti. Frásögn af atburðarásinni var ósönn og ljóst er að um var að ræða skipulagðan verknað.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag.

„Frá því að sundurklipptar upptökur af samtalinu tóku að birtast í fjölmiðlum hafa þingmennirnir sem urðu fyrir brotinu kallað eftir því að upplýst yrði um málið í heild. Aðilar sem töldu réttlætanlegt að brjóta lög til að upplýsa um það sem þeir vildu koma á framfæri við almenning hafa hins vegar barist hart gegn því að varpað yrði ljósi á það sem raunverulega gerðist, meðal annars fyrir dómstólum. Dómstólar kváðu þó upp úr um að Persónuvernd hefði vald til að veita aðgang að gögnunum sem kallað var eftir. Nú höfum við fengið aðgang að þessum gögnum að hluta, m.a. upptökum úr öryggismyndavélum. Við blasir hvers vegna barist var gegn afhendingu gagnanna.

Niðurstaðan er sú að ein mesta persónulega aðför sem gerð hefur verið opinberlega að stjórnálamönnum og öðru saklausu fólki í seinni tíð var skipulögð aðgerð. Aðgerð sem svo var réttlætt og rekin áfram með blekkingum.“ segir hann.

Kom í bifreið, vel tækjum búin

„Hópur þingmanna settist saman að spjalli (innst í tómum sal) á veitingahúsi í nágrenni Alþingishússins, eins og löng hefð er fyrir. Nokkru síðar mætti manneskja til að njósna um samtal þeirra og taka það upp. Hún kom í bifreið, að því er virðist vel tækjum búin, og gekk fumlaust til verks. Fyrsta verkefnið mun hafa verið að taka mynd af hópnum inn um glugga staðarins. Mynd sem síðar var haldið fram, m.a. fyrir dómstólum, að hefði verið tekin af vegfaranda fyrir tilviljun. Eftir að hafa gengið inn, haft viðkomu á salerni, komið fyrir tækjabúnaði og sett á sig heyrnartól hóf hún að taka upp. Upptakan stóð klukkustundum saman allt frá því að sú sem sá um hlerunina settist og þar til hún yfirgaf staðinn. Tækin voru færð til á meðan á upptöku stóð en megnið af kvöldinu sat viðkomandi í fjærenda salarins með heyrnratólin. Fráleitt hefði verið að ætla að nokkur væri að hlusta á einkasamtal þingmannanna. Aðgerðin var svo skyndilega stöðvuð þegar borgarfulltrúi Vinstri grænna slóst í hópinn. Ýmislegt fleira kemur fram á myndbandsupptökunum sem gerð verður grein fyrir síðar.

Hinar illa fengnu upptökur voru svo unnar, klipptar til og framleiddar úr þeim ótal fréttir sem margar voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að draga upp óviðurkvæmilega mynd af fórnarlömbum glæpsins en ekki að leiða fram eðlilega mynd af upptökunni. Torkennilegum hljóðum var jafnvel ljáð merking og notuð sem hluti frásagnarinnar.

Ráðist á saklaust fólk

Þolendurnir fengu frumupptökur ekki afhentar. Þess í stað var haldið áfram að birta sundurklippta búta og búa til sögu. Sögu sem ætlað var að sýna að þingmenn hefðu sest niður saman til þess eins að rægja aðra og viðhafa dónalegt orðbragð. Við þessar aðstæður varð engum vörnum við komið og þeir sem brotið var á, fólkið sem tekið var upp, og þeir sem um var talað, látnir svara fyrir þá brengluðu mynd sem dregin var upp.

Þetta var pólitísk aðgerð. Ekki verður annað séð en að markmið hennar hafi verið að knésetja Miðflokkinn, sama hversu margt saklaust fólk þyrfti að líða fyrir það. Og fólk hefur svo sannarlega liðið fyrir. Heilu fjölskyldurnar máttu þola angist vikum og mánuðum saman og grimmilega refsingu fyrir að á þeim hefði verið brotið. Enginn dómstóll hefði dæmt fólki slíka refsingu jafnvel þótt það hefði verið fundið sekt um alvarlegt afbrot í stað þess að vera þolendur þess.

Pólitíkin

Ætla hefði mátt að pólitískir andstæðingar á Alþingi hefðu brugðist við með því að fordæma brotið og krefjast þess að við því yrði brugðist á afgerandi hátt. Þrátt fyrir að oft sé hart tekist á í pólitíkinni væri eðlilegt að ætla að í slíku tilviki myndu flestir þingmenn hefja sig yfir ágreining um stjórnmálastefnu og gera kröfu um að grundvallarreglur réttarríkisins og almenn mannréttindi Alþingismanna yrðu varin.

Sú varð aldeilis ekki raunin. Sumir skriðu ofan í holur sínar en aðrir litu fyrst og fremst á þetta sem pólitískt tækifæri. Þó var ekki látið þar við sitja. Hópur þingmanna reyndi að nýta málið til að upphefja sjálfa sig og lentu þar í innbyrðis samkeppni þar sem þeir sem lögðust lægst töldu sig hafa skorað hæst.

Sumir þeirra þingmanna sem brotið var á hafa mátt þola hreint einelti innan veggja Alþingis og utan. Dæmi eru um að þingmenn hafi beitt áhrifum sínum til að hvetja utanaðkomandi aðila, meira að segja heilu samtökin, til að forsmá pólitíska andstæðinga sína. Í sumum tilvikum hafa aðferðirnar sýnt fram á ótrúlega fordóma og grímulausan vilja til mismununar.

Það hvernig Alþingi hefur verið misbeitt í pólitískum tilgangi er svo efni í aðra og lengri grein. Að sinni læt ég nægja að benda á fáránleika þess að fulltrúar löggjafarþingsins skuli hafa lagst svo lágt að taka við illa fengnum og ólögmætum upptökum og gert ítrekaðar tilraunir til að nýta þær í eigið pólitíska framapot. Í þeim efnum svifust menn einskis og fóru jafnvel í tráss við lög, hafandi þó áður þurft að lýsa sig vanhæfa til að fjalla um málið vegna framgöngu sinnar.

Das Leben der Anderen

Þegar í ljós kom að Alþingi hefði látið skrifa upp handrit af hinu illa fengna og endurunna samtali taldi ég að nýrri lægð væri náð. Einhver starfsmaður Alþingis hafði verið settur í það hlutverk, eins og hver annar ritari hjá svo kölluðu ríkisöryggisráðuneyti Austur-Þýskalands, að sitja og hlusta á hljóðrit af einkasamtali og reyna með eigin túlkun að skrifa það upp í skýrslu sem svo yrði nýtt gegn þeim sem teknir höfðu verið upp.

Endurritið var hið sérkennilegasta. Fullt af ágiskunum um hver sagði hvað og hvað væri sagt, auk undarlegra og gildishlaðinna athugasemda. Þó var áhugavert að lesa handritið í heild því það sýndi fram á hversu fráleit mynd hafði verið dregin upp af samtalinu í fréttum. Sem dæmi má nefna samræður um stjórnmálakonu sem snerust um að bera á hana lof á allan hátt. Þegar svo var grínast með viðhorf samflokksmanna til hennar og að þeir mætu hana ekki að verðleikum var sá bútur klipptur út og útlagður þannig að um væri að ræða enn eitt dæmið um illmælgi.

Það er líka áhugavert hverju var sleppt í umfjöllun um upptökurnar. Í mörgum tilvikum var þó um að ræða samræður um pólitísk viðfangsefni. Fremur var birt það sem til þess var fallið að meiða fólk.

Í handritinu er auk þess að finna margt sem er ólíkt því sem birst hefur í fjölmiðlum og vekur spurningar um hverju kunni að hafa verið sleppt eða bætt inn en ljóst er að búið var að eiga við upptökurnar.

Eðli samtalsins

Í rauninni er fráleitt að þurfa að lýsa einkasamtali nokkurra einstaklinga. Á þann stað erum við þó komin sem samfélag. Það er mikið áhyggjuefni. En í ljósi umræðunnar er rétt að leyfa sér að nefna að samtalið í heild er að mestu dæmigert spjall stjórnmálamanna um pólitískar vendingar og leikendur. Sumir þátttakenda nota í nokkrum tilvikum dónalegt orðbragð, sem var ósómi. Á því hafa þeir beðist fyrirgefningar. Þó varð það orðbragð sem má t.d. heyra á uppistandssýningum, þorrablótum, kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum t.d. bandarískum gamanþáttum.

Í því samhengi sem hlutirnir voru sagðir veittu viðstaddir þeim ekki mikla athygli og lögðu þá ekki á minnið. Þegar ummælin eru tekin úr því samhengi, og sett í annað, öðlast þau hins vegar nýja merkingu. Háði, kaldhæðni og kerskni er umbreytt í beinar yfirlýsingar jafnvel þótt engin meinfýsni hafi búið þar að baki.

Flestir geta ef til vill reynt að setja sig í þau spor að upplifa að eitthvað sem sagt væri í hálfkæringi yrði tekið upp og spilað fyrir alþjóð í nýju samhengi. Það er ekki að ástæðulausu sem það er ólöglegt að hljóðrita og birta einkasamtöl.

Sjálfur hef ég heyrt leynilega upptöku af ráðherra tala um mig. Mér fannst það óþægilegt og hlustaði ekki til enda. Hugsaði með mér að það sem viðkomandi sagði hlyti að markast af aðstæðum.

Hræsnin

Eitt af því versta við þetta mál var að upplifa tvískinnungsháttinn og hræsnina sem sumir þingmenn leyfa sér. Ráðherrar og þingmenn sem ég hef hlustað á segja ótrúlega grófa hluti birtust skyndilega sem hvítþvegnir englar sem skildu ekki hvernig svona samtöl gætu átt sér stað.

Fólk sem leyfir sér ótrúlegan dónaskap í opinberri umræðu og talar reglulega af meinfýsni um pólitíska andstæðinga, og jafnvel samherja, sýndi sérstaka hneykslun og gagnrýnendur viðhöfðu margir hverjir orðbragð sem gaf verstu dæmunum úr einkasamtalinu ekkert eftir.

Raunar efast ég um að margir þingmenn kæmust í gegnum að vera teknir upp í fjóra klukkutíma við þessar aðstæður án þess að reynast töluvert gagnrýnni og litskrúðugri í orðavali en ég var þetta kvöld. Þó skal viðurkennt að í umræddu einkasamtali sagði ég um stjórnmálamann í öðrum flokki að honum væri ekki treystandi. Það mun víst teljast ofbeldi samkvæmt einhverju gildismati.

Tilgangurinn helgar meðalið

Ég geri mér grein fyrir því að sumum er og verður alveg sama um staðreyndir málsins. Telja jafnvel að tiltekið fólk eigi ekki rétt á að verjast.

Þótt atlagan hafi ekki tekist að fullu munu þeir sem eru tilbúnir til að beita slíkum brögðum auðvitað ekki láta staðar numið. Sumir munu ekki breyta skoðun sinni sama hvað kemur í ljós. Tilgangurinn helgar meðalið. Áfram verður unnið að verkefninu. Það á væntanlega ekki hvað síst við um þá sem hafa haft aðkomu að undirbúningi og framkvæmd og virðast leggja hreint hatur á fólk sem þeir telja of ósammála sér í pólitík. Áfram verður því snúið út úr og hlutirnir settir í annarlegt samhengi. Þó vona ég að samfélagið þróist ekki með þeim hætti að öll sanngirni og jafnvel grundvallarmannréttindi verði háð því hverjir eiga í hlut hverju sinni.

Væntanlega hafa þeir sem stóðu að aðgerðinni vænst þess að lokamarkmiðið næðist og tryggt yrði að allir þeir sem fyrir henni urðu myndu víkja og stuðningur hverfa.

Við munum hins vegar áfram berjast fyrir því að upplýst verði um alla þætti þessa máls. Það varðar fleiri en þá sem fyrir urðu. Það varðar réttindi okkar allra,“ segir Sigmundur Davíð í grein sinni.