Úrslitastund í deilunni um orkupakkann: Helgi kveður og Ragna mætir til leiks

Fundinn sátu þau Auður Elva Jónsdóttir, fjármála- og rekstrarstjóri, Solveig K. Jónsdóttir, forstöðumaður upplýsingamála og ritari yfirstjórnar, Helgi Bernódusson skrifstofustjóri, Ragna Árnadóttir, verðandi skrifstofustjóri, og Þorsteinn Magnússon varaskrifstofustjóri. / althingi.is

Alþingi kemur saman til fundar í dag miðvikudaginn 28. ágúst á því sem kallað hefur verið þingstubbur, eða stutt síðsumarsþing. Á dagskrá fundarins er framhald síðari umræðu um þingsályktun um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).

Á morgun, fimmtudaginn 29. ágúst, verða á dagskrá síðari umræða um þingsályktun um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 2. umræða um frumvarp um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku) og 2. umræða um frumvarp um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði).

Atkvæðagreiðslur um öll málin fara síðan fram mánudaginn 2. september. Óhætt er að segja að þeirrar atkvæðagreiðslu sé beðið með mikilli eftirvæntingu, enda mörg stór orð fallið um vægi málsins undanfarnar vikur og mánuði.

Á dagskrá þingfundar á fimmtudeginum að loknum umræðum um orkupakkamálin þrjú verður einnig frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum) og 2. umræðu um það lokið.

Síðasti yfirstjórnarfundur Helga

Fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson, sat í morgun sinn síðasta yfirstjórnarfund en hann lætur af störfum nú um mánaðamótin. Ragna Árnadóttir, sem tekur við stöðunni 1. september, var einnig á fundinum, sem var að öðru leyti hefðbundinn.

Yfirstjórn veitir starfi skrifstofunnar forustu og annast samhæfingu í starfsemi hennar, sinnir þróun og mótar framtíðarsýn fyrir starf skrifstofunnar.