Utanþingsráðherrann vill nú verða varaformaður VG

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

„Öll eigum við okkur drauma í leik og starfi. Öll brennum við fyrir einhverju. Við höfum hugmyndir um hvernig samfélag við viljum byggja og sýn á framtíðina.“

Þetta segir í skeyti sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og fv. framkvæmdastjóri Landverndar, hefur sent félagsmönnum í Vinstri hreyfingunni — grænt framboð, en hann hefur ákveðið að bjóða sig fram sem varaformaður flokksins á landsfundi sem fram fer í Reykjavík um aðra helgi.

Núverandi varaformaður VG, Edward Huijbens, er fluttur til útlanda vegna vinnu og gefur ekki áfram kost á sér.

Guðmundur Ingi situr sem ráðherra utan þings og lögð var áhersla á að hann væri utan stjórnmálanna, þegar hann var valinn ráðherra á sínum tíma.

„Ég hef alla tíð brunnið fyrir umhverfismálum og unnið að þeim á margvíslegum vettvangi, hjá stofnunum ríkisins, í háskólum, hjá félagasamtökum og nú í tæp tvö ár sem ráðherra. Áður en ég kom inn í ráðuneytið hafði ég lengi kallað eftir meiri aðgerðum í umhverfismálum, til dæmis varðandi loftslagsmál, plastmengun og friðlýsingar. Það hefur því verið einstakt að fá tækifæri til að koma á koppinn fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, vinna að banni á mörgum einnota plastvörum, hefja stórátak í friðlýsingum og auka fjármagn til umhverfismála um 25% á tveimur árum. En það þarf svo sannarlega að gera meira og ég er rétt að byrja.

Þegar ég hugsa um drauma mína og framtíðarsýn þá eru hvorutveggja samofin umhverfismálum og réttlátu og friðsömu samfélagi. Ég vil að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána og það með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi. Loftslagsváin snertir okkur öll sem búum í þessum heimi. Það er stórt réttlætismál að aðgerðir í loftslagsmálum geti nýst umhverfi og náttúru og á sama tíma tekist á við efnahagslegt misrétti. Þetta er sýn um nýja tíma.

Ég vil sjá Ísland þróast og eflast sem land náttúrunnar, þar sem nýting auðlinda er sjálfbær og endurheimt landgæða í fyrirrúmi. Þjóðgarðar á landi og í sjó beri metnaði og framsýni þjóðarinnar glöggt vitni, enda öflugt verkfæri til náttúruverndar og atvinnuuppbyggingar á landsbyggðunum. Þetta er líka sýn um nýja tíma.

Það er nauðsynlegt að grænu málin verði meginstefnumál og fái almennt meiri vigt hjá öllum stjórnmálaflokkum. Umhverfisfræðin kennir okkur að umhverfismálin eru þverfagleg og þurfa að tengjast öðrum málaflokkum með skýrum hætti: samgöngumálum, skipulagsmálum, heilbrigðismálum, atvinnuvegamálum og svo framvegis. Þetta snýst því líka um að brjóta niður gamla múra milli málaflokka og hugsa víðar og stærra. Við erum að verða betri og betri í þessu og sú stórkostlega vitundarvakning sem orðið hefur meðal almennings hjálpar til við að gera umhverfismálin að meginstefnumáli. Það er ekki bara frábært heldur bráðnauðsynlegt.

Ég vil vinna á grundvelli vísinda og þekkingar. Þess vegna veldur afneitun stjórnmálaleiðtoga á loftslagsvísindum, hvar sem er í heiminum, mér þungum áhyggjum. Uppgangur fasisma og mannfjandsamlegra viðhorfa í garð hinsegin fólks og kvenna eru einnig viðfangsefni nútímastjórnmála, þar sem bráðnauðsynlegt er að sporna við fótum með manngæsku, ást og frið að leiðarljósi. Hér þurfum við öll að hjálpast að og ég er klár í þann slag.

Kæru vinir, mig langar að vinna áfram að baráttumálum mínum og annarra umhverfis- og náttúruverndarsinna á vettvangi stjórnmálanna, eins og ég hef gert undanfarin tæp tvö ár, og stuðla að því að grænu málin fái sem mestan sess í íslenskum stjórnmálum. Ég vil koma að því að móta nýja tíma. Ég vil sjá enn fleira umhverfisverndarfólk í brúnni í íslenskum stjórnmálum og hef því ákveðið að bjóða mig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins nú í október. Ég hlakka til að hlusta og heyra, móta og taka þátt í að skapa betri og lífvænlegri heim fyrir okkur öll, afkomendur okkar og aðrar lífverur á Jörðinni,“ segir Guðmundur Ingi ennfremur í skeyti sínu.