Útbreiðsla faraldursins hvað minnst á Norðurlöndunum utan Svíþjóðar

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna. / Lögreglan.

Ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi bætast á lista með Færeyjum og Grænlandi og verða frá og með deginum í dag undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna Covid-19.

Sóttvarnalæknir tilkynnti á dögunum að frá og með fimmtudeginum 16. júlí muni Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland verða fjarlægð af lista yfir áhættulönd vegna Covid-19. Þar af leiðandi munu ferðamenn sem koma frá þessum löndum verða undanþegnir sóttkví og skimunarkröfum sem eiga almennt við um farþega sem koma til Íslands. Íslendingar sem snúa aftur heim verða einnig undanþegnir lögboðnum varúðarráðstöfunum, en eru hvattir til að sýna varúð fjórtán daga eftir heimkomu, viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum og forðast á þeim tíma samneyti við viðkvæma einstaklinga.

Skilyrði fyrir undanþágunni er að ferðamaðurinn hafi ekki heimsótt svæði sem flokkast sem áhættusvæði fjórtán dögum fyrir komu til Íslands.

Þeir einstaklingar sem hafa íslenskt ríkisfang og einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi og hafa komið frá löndum sem tilheyra áhættusvæði þurfa að fara í skimun á landamærum, viðhafa heimkomusmitgát og fara í aðra sýnatöku fjórum til sex dögum eftir heimkomu sbr. reglum sem tóku gildi 13. júlí.

Frá 15. júní hefur Ísland boðið öllum ferðamönnum sem hingað koma að fara í skimun fyrir Covid-19 við landamærin sem valkost við 14 daga sóttkví. Fjöldi þeirra er tæplega 49.000. Á þessu tímabili hafa samtals 36.738 próf verið tekin. Af þeim hafa 83 sýni verið greinst jákvæð. Virk smit hafa verið 12 en rúmlega sextíu hafa greinst með gömul og óvirk smit.

„Þegar þróun Covid-19 faraldursins er skoðaður sl. 14 daga skv. upplýsingum Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) kemur í ljós að útbreiðsla faraldursins er hvað minnst á Norðurlöndunum utan Svíþjóðar og í Þýskalandi. Þessu til viðbótar höfum við vitað að erlendir ferðamenn séu almennt ólíklegir til þess að smita út frá sér. Að þessu tvennu samanteknu, og með hliðsjón af reynslu okkar af sýnatökunni frá 15. júní, er eðlilegt að falla frá þessum stífu kröfum á ferðamenn frá þessum löndum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Sem stendur er vitað um tólf virk smit á Íslandi og 93 einstaklingar eru í sóttkví. Enginn hefur verið lagður inn á sjúkrahús með Covid-19 hér á landi frá 14. maí. Alls hafa 1.882 manns náð bata eftir smit, en 10 hafa látist.

Þeir sem eru fæddir árið 2005 og síðar eru áfram undanþegnir kröfum um sóttkví og skimun. Sóttvarnalæknir mun uppfæra lista yfir áhættulönd í samræmi við þróun faraldursins.