Útflutningur iðnaðarvara meira en helmingur gjaldeyristekna

Verstöðin Ísland framleiðir meira en sjávarfang, en í nýjum tölum Hagstofunnar  kemur fram að útflutningur iðnaðarvara var meira en helmingur gjaldeyristekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru á síðasta ári eða 53%.

Útflutningur iðnaðarvara nam 321 milljarði króna á síðasta ári, að því er fram kemur í upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins.

Útflutningurinn á iðnaðarvörum jókst um 14,7% frá árinu 2017 sem er umtalsverður vöxtur en þá nam útflutningurinn 280 milljörðum króna. Í samanburði má nefna að útflutningur sjávarafurða var 240 milljarðar króna eða 40% af gjaldeyristekjum af vöruútflutningi þjóðarbúsins á síðasta ári.

Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af vöruútflutningi nam 602 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 16% milli ára.