Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hvetur þingmenn Sjálfstæðisflokks til að leggjast gegn því að ákvæði um útgöngubann verði lögfest í sóttvarnalögum.
Félagið bendir í því samhengi á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og það að varhugavert er að lögfesta almennt orðuð bannákvæði, sem gætu brotið í bága við stjórnarskrá.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði á dögunum fram frumvarp að nýjum sóttvarnalögum á Alþingi, þar sem er að finna ýmis nýmæli og áréttingar á gildandi valdheimildum sóttvarnalæknis. Þar er m.a. kveðið á um skilyrði þess að sett verði útgöngubann til að hamla útbreiðslu farsótta.
Þá telur Heimdallur að stjórnvöld þurfi að mynda skýrari stefnu í sóttvarnamálum í ljósi alvarlegra afleiðinga sóttvarnaaðgerða sem og þess að níu mánuðir eru liðnir frá byrjun faraldursins. Því til stuðnings vísar félagið til álitsgerðar Páls Hreinssonar, þar sem talið er að eftir því sem lengra líður á faraldurinn sé hægt að gera ríkari kröfur til þess að hið opinbera taki ákvarðanir út frá betri og meiri upplýsingum og að aðgerðir verði betur sniðnar að aðstæðum.