Útlendingum utan EES og EFTA óheimilt að koma nema af brýnni nauðsyn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur tilkynnt að ferðatakmarkanir sem tóku gildi þann 20. mars sl. verði framlengdar til 15. maí nk.

Frá þessu greinir á vef dómsmálaráðuneytisins. Umfang takmarkananna er óbreytt og verður því útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, áfram óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda.

Ríkisborgarar Schengen svæðisins og aðstandendur þeirra munu áfram geta komið óhindrað inn á svæðið og er sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Þá eru ákveðnar starfsstéttir undanþegnar takmörkunum, þ. á m. starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út tilmæli þann 8. apríl sl. til aðildarríkja sambandsins og Schengen samstarfsins um að draga áfram úr ferðum fólks inn á Schengen svæðið til 15. maí nk. í því skyni að hægja á útbreiðslu kórónaveirunnar.

Nauðsynlegt sé þannig að framlengja þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til svo að hægt sé að ná stjórn á útbreiðslu COVID-19. Þær aðgerðir nái aðeins tilgangi sínum að öll aðildarríki taki þátt og að gildistími takmarkananna sé hinn sami.

Nánari upplýsingar um tilhögun og framkvæmd takmarkananna má finna á heimasíðu Útlendingastofnunar.

Hér má finna fyrri fréttatilkynningu ráðuneytisins um ferðatakmarkanir.