Útlit fyrir mest spennandi forsetakosningar í sögu lýðveldisins?

Skoðanakönnun Prósents, sem gerð er fyrir Morgunblaðið og birtist í dag, bendir til þess að framundan séu mest spennandi forsetakosningar í sögu lýðveldisins. Þrjár konur eru efstar og nær hnífjafnar sex dögum fyrir kosningar og munurinn á þeim langt innan allra skekkjumarka, sem eru í þessu tilfelli 18,1% og 23,2%.

Í frétt Morgunblaðsins segir ennfremur:

„Miðað við það virðist óhætt að full­yrða að um næstu helgi bíði þjóðar­inn­ar mest spenn­andi for­seta­kjör í sögu lýðveld­is­ins, þar sem örfá at­kvæði geta riðið baggamun­inn um það hver verði næsti for­seti Íslands.

Sam­kvæmt mæl­ingu Pró­sents er Halla Hrund Loga­dótt­ir með mest fylgi (21,0%), en sem fyrr seg­ir er það svo litlu meira en hjá næstu tveim­ur fram­bjóðend­um, að ógern­ing­ur er að halda því fram að hún hafi orðið þeim hlut­skarp­ari í könn­un Pró­sents, sem hófst liðinn þriðju­dag og stóð þar til í gær­morg­un.

Enn minni mun­ur er þó á hinum tveim­ur, en Halla Tóm­as­dótt­ir mæld­ist með 0,1% meira fylgi en Katrín Jak­obs­dótt­ir. Sá mun­ur fólst í tveim­ur fleiri svör­um til handa Höllu Tóm­as­dótt­ur, sem við blas­ir að ekki er unnt að draga nein­ar álykt­an­ir af.

Bald­ur Þór­halls­son mæld­ist með 16,9% fylgi, sem er mark­tækt minna en fylgi Höllu Hrund­ar, en efri vik­mörk hans skar­ast hins veg­ar lít­il­lega við lægri vik­mörk Höllu Tóm­as­dótt­ur og Katrín­ar. Hann á því vel mögu­leika á að blanda sér í bar­átt­una á loka­sprett­in­um.

Katrín talin langsigurstranglegust

Fylgi Jóns Gn­arrs minnkaði hins veg­ar áfram, svo ólík­legt verður að telj­ast að hann kom­ist í fremstu röð úr þessu. Til þess þyrfti hann að tvö­falda fylgið í vik­unni. Arn­ar Þór Jóns­son jók nokkuð við sig fylgið og er nú með 6,4%, en þyrfti að meira en þre­falda það til þess að skáka efstu mönn­um miðað við þessa könn­un.

Hins veg­ar er enn sem fyrr at­hygl­is­vert að líta til þess, hvaða fram­bjóðanda svar­end­ur telja lík­leg­ast­an til sig­urs, óháð því hver þeir vildu helst að hefði sig­ur. Að ein­hverju leyti end­ur­spegla þau svör niður­stöður annarra kann­ana, en þau eru líka til þess fall­in að draga fram falið fylgi eða óráðið.

Þar hef­ur Katrín Jak­obs­dótt­ir tekið af­ger­andi for­ystu á alla aðra fram­bjóðend­ur, en nær 45% telja að hún verði næsti for­seti Íslands. Þar er Katrín að fá meira en tvö­falt meira en næsti fram­bjóðandi á eft­ir og meira en tvö­falt upp­gefið fylgi í könn­un­inni.“