Væru öfugmæli að skipa fólki sem er í bústöðum að rjúka heim

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. / Lögreglan.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar Ríkislögreglusstjóra segir að fólk sem dvelur þessa dagana í sumarhúsum sínum og hefur jafnvel gert um nokkurt skeið, eigi ekki að skilja tilmæli hans um að ferðast innanhúss þannig að það eigi nú að rjúka heim.

Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn Viljans á upplýsingafundi Almannavarna í gær. Lesendur, sem dvelja nú í sumarhúsum sínum höfðu haft samband og lýstu áhyggjum af því að vera með því mögulega að óhlýðnast Víði og tilmælum yfirvalda.

„Eitt af því sem við höfum verið að leggja áherslu á í tilmælum okkar um að fólk ferðist innanhúss um páskana er að reyna að draga sem mest úr umferð á vegum landsins,“ sagði Víðir og benti á að þetta væri gert til að draga þannig úr líkum á umferðarslysum sem gætu reynst heilbrigðiskerfinu erfið, enda glími það nú við þung og vaxandi verkefni vegna Kórónuveirufaraldursins.

„Það væru því nokkur öfugmæli að fara fram á það við fólk sem er nú í bústöðum rjúki heim. Það ætti fremur að halda kyrru fyrir það sem það er,“ sagði Víðir Reynisson.