Vel var mætt á doktorsvörn Valgerðar Sólnes sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun. Þar varði hún ritgerðina „Eignarhald á landi: Dómar Hæstaréttar í þjóðlendumálum (e. Clarifying land title: Land reform to eliminate terra nullius in Iceland)“, en aðalleiðbeinandi hennar var Davíð Þór Björgvinsson, rannsóknaprófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Valgerður kynnti ritgerðina og í kjölfarið spurðu andmælendur hana út í einstök atriði, en þeir voru Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, dr. Mads Bryde Andersen prófessor við Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla og dr. Arnfinn Bårdsen dómari við Hæstarétt Noregs.
Að því loknu véku andmælendur úr salnum, ásamt Eiríki Jónssyni, deildarforseta, sem stýrði athöfninni. Stuttu síðar komu þau til baka og tilkynntu að vörnin hefði verið fullnægjandi og veittu Valgerði doktorsgráðuna.