Umræða um orkupakkana snertir þá grundvallarþætti sem tengja okkur saman sem þjóð. Rétt eins og landhelgin og sjálfbær nýting hennar, eignarhald á landi, bújörðum og náttúruperlum landsins. Yfirráð yfir orkunni eru okkur heilög. Það er því alvörumál að vera ætlað að vilja framselja yfirráð og eignarhald á orkuauðlindum landsins. Ekkert er fjær okkur.
Þetta skrifar sjálfstæðismaðurinn Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Haraldur, sem er bóndi undir Akrafjalli og fv. formaður Bændasamtakanna, hefur eins og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurft að glíma við megna óánægju í grasrót flokksins vegna áforma um innleiðingu þriðja orkupakkans.
Hann segir að rót umræðunnar liggi ekki síst í hvernig við höfum hér áður innleitt svonefnda orkupakka.
„Aðskilnaður á flutningi og framleiðslu orku varð hér á árunum eftir 2003. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Guðmundsson, var einn þeirra sem vöruðu við þeirri vegferð. Segja má að flest hans viðvörunarorð hafi ræst. Þannig er veruleikinn sá að flutningur rafmagns hefur stórhækkað í verði. Leiða má líkur að því að við höfum áður verið lítt meðvituð um kostnað um uppbyggingu dreifikerfis og rekstur þess. Greiddum bara einn orkureikning. Veruleikinn er sagna bestur og reynslan. Dreifbýlisnotandi rafmagns hjá Rarik hefur séð reikning vegna flutnings á rafmagni frá árinu 2005-2018 hækka um 108% meðan almennt verðlag hækkaði um 45%. Þrátt fyrir að á sama tíma hafi niðurgreiðslur til jöfnunar á flutningskostnaði úr ríkissjóði hækkað um liðlega 300%,“ segir Haraldur og bætir við að því sé ekki að undra að vantraust sé á enn einum orkupakkanum.
Þjóðaratkvæði forsenda sæstrengs
„Það er því fagnaðarefni að iðnaðarráðherra hefur þegar hafið vinnu til að vinda ofan af því misrétti á milli landsmanna sem innleiðing á orkupakka 1 og 2 var. Það er almennur stuðningur við að allir landsmenn njóti þess að hafa sambærilegan aðgang að orkuframleiðslunni. Að því verður að vinna og er kannski ein helsta niðurstaða umræðunnar undanfarna mánuði um orkumál.
Tenging við raforkukerfi annarra landa er afdrifarík. Góð þekking er á hvernig orkureikningar heimila í nágrannalöndum okkar hafa hækkað gríðarlega. Það er von að ótti sé við slíka þróun hér. Tenging um sæstreng er því grundvallarmál og mun því verða forsendubreyting. Það gildir einu þó að sagt sé í opinberri umræðu að Ísland hafi burði til að jafna slíkan kostnað fyrir neytendur – reynslan er önnur.
Sú hugmynd er hér sett fram að áskilja það í innleiðingu orkupakka 3 að setja lagaákvæði um að slík tenging verði aðeins með samþykki þjóðarinnar í sérstakri atkvæðagreiðslu. Sæstrengur og bygging grunntengivirkja fyrir slíka tengingu verði því aðeins að meirihluti landsmanna samþykki það í atkvæðagreiðslu,“ segir þingmaðurinn.
Vill hefja stórátak í sölu ríkisjarða
„Umræða um eignarhald á bújörðum og landsvæðum er önnur umræða sem einnig verður að taka. Um það er meiri stuðningur en áður að búa lagaumgjörð með þeim hætti að eignarhald jarða verði af ábyrgð og til byggðafestu. Ríkið er stærsti einstaki eigandi bújarða. Það færi vel á því að hefja nú átak í sölu ríkisjarða undir merkjum nýrrar stefnu í eignarhaldi á bújörðum. Stefnu sem styrkir byggð og búsetu, því blómlegar byggðir eru helsta aðdráttarafl landsins.
Fjármunum af sölu ríkisjarða mætti ráðstafa til eflingar á heilbrigðisstofnunum um land allt, sem margar hverjar hafa nú þurft að þola takmarkað viðhald og endurbætur á húsum og tækjakosti. Uppbyggingu á nútímalegri heilbrigðisþjónustu sem er nær fólki en skapar öllum aðgang að færustu sérfræðingum. Þar höfum við vart enn nýtt bestu tækni sem auðveldar slíkt aðgengi og gerir þjónustuna hagkvæmari.
Þessi mál eru nefnilega öll samofin í vitund okkar sem viljum efla byggð og fullveldi okkar. Nýting og yfirráð landhelginnar, yfirráð og eignarhald á landi og ekki síst full yfirráð yfir orkuauðlindum okkar,“ segir Haraldur Benediktsson ennfremur.