Vantraust lagt fram á matvælaráðherra

Núverandi og fyrrverandi matvælaráðherrar hafa báðar fengið á sig vantrausttillögu vegna hvalveiðimála.

Miðflokkurinn leggur í dag fram vantrausttillögu á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vegna embættisfærslu hennar í hvalamálinu svokallaða. Þetta staðfestir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, í samtali við Viljann.

Tillagan verður lögð fram við upphaf þingfundar í dag,en líklegt má telja að hún verði tekin til afgreiðslu strax á morgun.

Viðbúið er að þingmenn stjórnarandstöðunnar styðji vantrausttillöguna, en óvíst er um viðbrögð stjórnarþingmanna. Þó hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt harðlega hversu lengi matvælaráðherra dró að taka ákvörðun í málinu og að hún hafi ekki verið í samræmi við ráðgjöf vísindamanna Hafró og aðeins tekið til þessa árs. Þess vegna hafi eiginlega verið útséð við útgáfu leyfisins að ekki yrði unnt að hefja hvalveiðar á þessari vertíð.

„Það var líklega tilgangurinn allan tímann hjá VG,“ segir Bergþór Ólason.