Var kallaður popúlisti, rugludallur, geðveikur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Fyrir kosningarnar 2013 benti ég á að ef höft yrðu afnumin myndi gríðarlegt fjármagn streyma úr landinu, mun meira en haldið hafði verið fram. Þetta var snjóhengjan svokallaða. Ég fullyrti að það þyrfti að tryggja að talsverður hluti þessara eigna yrði afhentur ríkinu svo hægt væri að afnema höft. Þær upphæðir hlypu á hundruðum milljarða og hægt væri að ná þeim. Fyrir þetta var ég m.a. kallaður popúlisti, rugludallur, geðveikur og verri nöfnum en það. Fullyrt var að ég talaði fyrir eignaupptöku, væri að búa til falsvonir, þetta væri mesta kosningayfirboð sögunnar, og væri auk þess ólöglegt og óframkvæmanlegt.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í færslu á fésbók í dag í tilefni þess að umræðum í þinginu er lokið um aflandskrónur og samþykkt sem lög frá Alþingi. Í atkvæðagreiðslunni sagði Sigmundur Davíð að komið hefði í ljós í umræðum um málið, að tveir flokkar væru á þingi; annars vegar Miðflokkurinn og svo Samtryggingin, eins og hann orðaði það.

1200 hundruð milljarða snjóhengja

„Strax eftir myndun ríkisstjórnar var byrjað að vinna að áformunum. Fyrst voru hinir föllnu bankar skattlagðir og þannig hægt að ráðast í skuldaleiðréttingu. 2015 voru svo kynntar aðgerðir til að losa höft og endurreisa efnahagslífið.

Eignirnar sem töldust til „snjóhengjunnar” námu 1.200.000.000.000 krónum, þ.e. tólfhundruð milljörðum.

U.þ.b. 3/4 voru í slitabúum bankana og 1/4 í svo kölluðum aflandskrónum. Aðgerðirnar voru hannaðar til að jafnræðis yrði gætt og allir legðu sitt af mörkum.

Byrjað var á slitabúunum og aflandskrónurnar áttu að klárast strax í kjölfarið.

Niðurstaðan náðist ekki án skýrrar pólitískrar stefnu og sannarlega ekki án átaka. Ótal ástæður voru nefndar fyrir því að krafa stjórnvalda væri ekki forsvaranleg. Ýmsum aðferðum var líka beitt til reyna að hafa áhrif á umræðuna. Ég eignaðist einbeitta og öfluga andstæðinga sem voru að verja gífurlega hagsmuni.

Niðurstaðan varð engu að síður sú að meirihluti þessara eigna slitabúanna var afhentur ríkinu og gjörbreytti efnahagslegri stöðu landsins.

En þegar kom að því að klára aflandskrónuhlutann varð bið á að aðgerðum væri hrint í framkvæmd. Ríkisstjórnin rak þó fast á eftir því að málið yrði klárað sem fyrst og á þann hátt sem lagt var upp með. Loks var fullyrt að málið yrði klárað með einni aðgerð vorið 2016.

Þegar ég steig til hliðar sem forsætisráðherra þá um vorið lagði ég áherslu á að ég gerði það –og gerði það einn– til að tryggja ríkisstjórninni frið til að ljúka þessu mikilvæga verkefni.

Stjórnvöld þvinguð til uppgjafar

Aflandskrónumálin voru þó aldrei kláruð með þeim hætti sem til stóð. Þess í stað hófst ítrekuð eftirgjöf gagnvart vogunarsjóðunum sem áttu aflandskrónurnar. Nú var hlustað á sams konar málflutning og beitt hafði verið til að reyna að koma í veg fyrir niðurstöðuna hjá slitabúunum.

Eftir að ríkisstjórnin gafst upp og boðaði til kosninga gengu þessir aðilar svo langt að reyna að hafa áhrif á Alþingiskosningar m.a. með auglýsingum.

Að loknum kosningum hélt eftirgjöfin áfram m.a. í málefnum Arion banka. Ríkið hélt áfram bjóða betra og betra verð fyrir aflandskrónurnar. Enginn fékk þó að selja aflandskrónur án þess að leggja framlag til ríkisins. Þar til nú.

Frumvarpið sem varð að lögum í dag felur í sér að greiða þurfti verulegt gjald af losun allra 1.200 milljarðana nema af síðustu 84 milljörðunum. Einungis þeir sem neituðu alfarið að taka þátt í endurreisn efnahagslífsins sleppa við að greiða gjaldið. Hefði upphaflegu plani verið fylgt hefði það gjald hæglega getað numið 30 milljörðum króna.

Enn verra er þó að íslensk stjórnvöld sýndu að hægt væri að þvinga þau til uppgjafar í unnu máli,“ segir Sigmundur Davíð.