Var samstaðan engin samstaða? Fyrirvarar VG við útlendingafrumvarp koma í ljós

Orri Páll Jóhannesson, formaður þingflokks VG.

Þögnin um mögulega fyrirvara Vinstri grænna við frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga og hælisleitendur sérstaklega, var rofin í kvöld á Alþingi þegar Orri Páll Jóhannesson, formaður þingflokks VG, upplýsti að þingflokkurinn hefði gert margvíslega fyrirvara við málið áður en samþykkt var að afgreiða það til þinglegrar meðferðar.

Viljinn sendi þingflokksformanninum skeyti í síðustu viku og spurðist fyrir um málið, en engin svör hafa borist, fyrr en að Orri Páll kvaddi sér hljóðs í umræðum um frumvarpið í kvöld. Lagði hann áherslu á að taka þyrfti utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með bætta þjónustu og aukna inngildingu að leiðarljósi. Áhersla yrði lögð á mannúð og virðingu og unnið yrði gegn skautum í samfélaginu.

Er óhætt að segja að áherslupunktar þingflokksformannsins hafi verið allt aðrir en dómsmálaráðherrans Guðrúnar Hafsteinsdóttur sem mælti fyrir frumvarpinu, en þar lagði hún áherslu á að innviðir væru að bresta vegna mikils fjölda hælisumsókna, kostnaður væri kominn úr böndunum og stíga þyrfti nokkur skref á þessu þingi og því næsta til að snúa þessari þróun við.

Þingflokkur VG gerði að sögn Orra Páls „almennan fyrirvara“ við frumvarpið, þar sem ekki liggi fyrir nægar upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á gildistíma dvalarleyfa, svo sem hvort þær muni raunverulega auka skilvirkni við afgreiðslu mála eða hafa þveröfug áhrif og auka álag í stjórnsýslunni. Sagði hann allt benda til þess að fara þurfi oftar i gegnum umsóknir ef gildistími dvalarleyfa yrði styttur.

Þá sagði hann að skoða þurfi gaumgæfilega í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar, hver raunveruleg áhrif yrðu vegna fyrirhugaðra breytinga á rétti til fjölskyldusameininga. Sagði hann þingflokkinn hafa óskað eftir aðgengilegum gögnum á samanburði milli Norðurlandanna svo greina mætti fyrirhugað samræmi við ákvæði útlendingalaga þar og lagði áherslu á mikilvægi þess að slík gögn komi fram í þinglegri meðferð málsins.

Þingflokkur VG telur, að sögn Orra Páls, að ekki liggi fyrir nægilega skýrar upplýsingar um áhrif á fjárheimildir til málaflokksins til lækkunar, eins og boðað hefur verið samfara þessum breytingum.

Að endingu telur þingflokkurinn að greina þurfi betur áhrif frumvarpsins á ólíka hópa umsækjenda um alþjóðlega vernd og réttarstöðu þeirra, áður en það verður að lögum.

Orri Páll hefur áður upplýst að Vinstri græn séu „ekki spennt“ fyrir hugmyndum dómsmálaráðherra um lokuð búsetuúrræði fyrir þá sem hafa fengið synjun á umsókn um dvalarleyfi, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að þær nái að ganga sem fyrst, svo draga megi úr fjölda umsókna um alþjóðlega vernd.