Var verið að skiptast á uppskriftum eða ræða plottið í Ófærð?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Á þriðja hundrað manns hafa setið fyrsta milliþing Viðreisnar í dag í Silfurbergi í Hörpu. Hægt hefur verið að fylgjast með þinginu í beinni útsendingu hér á Viljanum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, opnaði þingið með ræðu þar sem hún fór yfir stöðu stjórnmálanna í dag. Hún nefndi að frá síðasta landsþingi hafi flokkurinn orðið þriðji öflugasti stjórnmálaflokkurinn á höfuðborgarsvæðinu. Hún sagði að heimurinn standi frammi fyrir ákveðnum flekaskilum; á öðrum flekanum væru gömlu íhaldsflokkarnir en á hinum flekanum, væru það frjálslynd öfl sem vilja nýja hugsun og verklag inn í pólitíkina. 

Yfirskrift þingsins er „Hjartað í Evrópu“ og minnti Þorgerður á að hjartað snúist um miklu meira en fjórfrelsið. Það snúist ekki síður um að minna okkur á mikilvægi friðarins í álfunni sem er jarðvegurinn sem Evrópusamstarfið er upprunalega sprottið úr. Hún tók það sérstaklega fram að á tímum þar sem þjóðernisöfgar ná tökum innan ríkja nálægt okkur er mikilvægt að hafa hjartað á réttum stað. 

Unga fólkið til fyrirmyndar 

Þorgerður sagði að taka ætti unga fólkið okkar til fyrirmyndar, sem er óhræddara við að skipta um skoðun og viðurkenna mistök en þeir sem eldri eru í samfélaginu. Það væri mikilvægt að þora að viðurkenna mistök og gera betur. Og að #MeToo væri dæmi um það hvernig yngri kynslóðirnar hafi náð kjölfestu í samfélagsumræðunni og að rými hafi skapast til að ræða mál sem ekki mátti ræða áður. 

Hún minnti á mikilvægi þess að hafa hugtökin framsýni og ábyrgð að leiðarljósi og að samspil þeirra geri stefnu Viðreisnar sérstaka og er það meginástæða þess að Viðreisn eigi erindi í Íslenskum stjórnmálum núna. Þannig sé framsýni að horfast í augu við  kalda og íþyngjandi raunveruleika krónunnar og vilja skipta um gjaldmiðil, en ábyrgt að benda á leiðir til að koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og fyrirtæki sligist undan vaxtaokri og þeirri rússíbanareið sem krónan býður uppá. 

Sama megi segja um að vilja afnema samkeppnishindranir í mjólkuriðnaði í burtu og nálgast breytingar á landbúnaðarkerfinu af ábyrgð. Sömuleiðis sé það framsýni að horfast í augu við umgjörðin í sjávarútveginum sé óviðunandi og að hún skapi ósætti og meiri togstreitu en litlu samfélagi er hollt. 

Ábyrgð að vera í meirihluta í borginni 

Þorgerður sagði að það væri ekki að leyna að mest hafi reynt á hlutverk Viðreisnar innan Reykjavíkurborgar, þar sem tekin var ákvörðun um að mynda meirihluta á málefnalegum forsendum. En sagði að þrátt fyrir að framsýni hafi verið til staðar við stjórnun borgarinnar, hafi ábyrgðin fallið í skuggann. Þess vegna væri hlutverk Viðreisnar við stjórnun borgarinnar brýnt og ljóst að gagnrýnum spurningum um kostnað, sóun og hagkvæmari leiðir til uppbyggingar yrði að svara. Þar hafi forystufólk Viðreisnar í borginni, Þórdís Lóa og Pawel látið greina vandann sem borgin glímir við, að aðgerðalistinn væri klár og nú væri verið að hefja nauðsynlegar breytingar í þágu bættar þjónustu við borgarbúa, fyrirtæki og skilvirkari stjórnsýslu. 

Hún tók fram að það vakti undrun hennar að ekki heyrðist bofs í minnihluta borgarinnar þegar ríkisstjórnin hefur boðað stórfelldar skattahækkanir á Reykvíkinga, í gegnum gamaldags nálgun á veggjöldum og auknum álögum. Aukinheldur að minnihlutinn virðist telja sitt helsta hlutverk vera að beita ofstæki og ósvífni gagnvart embættismönnum eða öðrum ímynduðum vinum. Eftir sitji Reykvíkingar og hafa ekki hugmynd um hvað minnihlutanum finnst um helstu viðfangsefni samtímans og borgarinnar. 

Kjaramálin á oddinn

Þorgerður ræddi kjaramálin og sagði að áhugavert væri að hvorki hafi verið minnst á gjaldmiðlamálin né verðmiðann á matarkörfunni í umræðum um kjaramál. Því hafi Viðreisn kappkostað við að taka ábyrga afstöðu til þessa flókna og vandasama viðfangsefnis. Hún sagði þó að ríkisstjórnin hafi fallið á væntingarstjórnunarprófinu með því að tilkynna frá fyrsta degi að hún ætlað að leysa komandi kjaradeilu. Ríkisstjórninni hafi legið svo mikið á að eigna sér niðurstöðuna og vera hinn frelsandi enginn. Hún velti fyrir sér hvað ríkisstjórnin hafi verið að gera á öllum þessum fundum með aðilum vinnumarkaðarins – skiptast á uppskriftum eða ræða plottið í Ófærð? 

Þorgerður sagði að milljarða veiðigjaldalækkanir VG hafi ekki verið hjálplegar inn í umhverfið. Það sama gildi um ákvarðanir kjararáðs um afturvirkar hækkanir til æðstu embættismanna og að laun ríkisforstjóra séu jafnvel tíföld þeirra sem lægstu launin hafa innan sömu stofnunar. Hún sagði að hið opinbera þyrfti að liðka fyrir og ganga undan með góðu fordæmi og lofa því að laun þeirra ríkisstarfsmanna sem hæstar tekjur hafa verði fryst í einhvern tíma. Hún minntist á skattatillögur Viðreisnar sem kynntar voru í janúar, er sem einblínt var á lægri og millitekjuhópana. Hún lofaði því að þrátt fyrir mistök ríkisstjórnarinnar væri Viðreisn reiðubúin að taka þátt í hverju því samráði á Alþingi sem líklegt er til að færa þessi mál úr því öngstræti sem þau virðast komin í. Þetta væri ekki tími klækjastjórnmála.