Nýi barnasjúkdómurinn sem virðist einkum leggjast á börn sem fengið hafa kórónuveiruna hefur nú greinst í sífellt fleiri löndum. Bandarískir læknar vara við því að útbreiðsla hans geti aukist á næstunni.
Ekki hefur tekist að finna bein vísindaleg tengsl milli hins nýja sjúkdóms og covid-19. Nokkur fylgni virðist þó vera milli barna sem hafa fengið kórónuveiruna og hans, að sögn breskra og bandarískra fjölmiðla.
Sóttvarnalæknir og landlæknir hafa sagt íslenska barnalækna og heilsugæslulækna fylgjast náið með þróun mála, en ekkert bendi til þess að sjúkdómurinn hafi enn sem komið er, skotið upp kollinum hér á landi.
Covid-19 virðist ekki leggjast illa í börn og þá eru þau áberandi minni smitberar en fullorðnir, að því er rannsóknir hafa sýnt að undanförnu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur enda sagt að kórónuveiran sé óvenjulega tillitsöm að þessu leyti.
Hinn nýi fjölkerfasjúkdómur virðist á hinn bóginn einkum herja á börn. Hann er talinn í ætt við svonefndan Kawasaki-sjúkdóm og myndar miklar bólgur í líkamanum og orsakar mikil og skyndileg veikindi. Vel hefur þó gengið að eiga við hann á sjúkrahúsum og aðeins örfá börn dáið af völdum hans, enn sem komið er.
Enda þótt veiran virðist ekki valda hinum nýja sjúkdómi, bendir ýmislegt til þess að börn sem smitist af veirunni án þess að veikjast illa, þrói með sér veikara ónæmiskerfi fyrst á eftir og séu því viðkvæmara fyrir, að því er fram kemur í frétt CNN um málið.
Meðal einkenna sem foreldrar eru hvattir til að vera vakandi fyrir, eru viðvarandi sótthiti, roði og útbrot. Hjartað og nýru virðast viðkvæm fyrir þessari sýkingu og önnur einkenni geta meðal annars verið roði í augum, skærrauð tunga og sprungnar varir.
Enn sem komið er, hefur sjúkdómurinn greinst í nokkur hundruð börnum í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og Bandaríkjunum, svo dæmi séu tekin. Öll þessi lönd hafa undanfarnar vikur farið mjög illa út úr kórónuveirufaraldrinum.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur tekið hinn nýja sjúkdóm til sérstakrar skoðunar og hyggst gefa út leiðbeiningar til lækna til að auðvelda greiningu á honum og meðferð.