„Um páskana 2016 fór ég í ferð til uppeldisstöðvanna á Hornafirði. Það var mikil umferð á þjóðvegi 1 og mér brá mjög. Á heimleiðinni ákvað ég að taka myndir af öllum 21 einbreiðu brúnum á leiðinni og sendi á þingmenn Suðurlands og gerði áhættumat. Einnig sendi ég á aðra aðila, s.s. fjölmiðla, ráðherra samgöngumála og ferðaþjónustu og Vegagerðina. Þetta var mín samfélagslega ábyrgð,“ segir Sigurpáll Ingibergsson í samtali við Viljann, en banaslysið hræðilega við Núpsvötn í gær, hefur enn og aftur vakið upp umræður um einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins og slysahættuna sem af þeim hlýst.
Sigurpáll segir að fjórir af tíu þingmönnum kjördæmisins hafi svarað.
„Ég ég man að Sigurður Ingi Jóhannesson sem nú er samgönguráðherra skildi málið vel enda nýlega búinn að vera í kosningabaráttu í Ríki Vatnajökuls. Um vorið var aukafé veitt í samgöngur og fóru nokkar milljónir í einbreiðar brýr. Þá voru sett blikkljós á allar brýr en það höfðu aðeins verið á fjórum brúm áður. Það var til mikilla bóta. Auk þess voru málaðar merkingar um þrengingar í veginn en það er að afmást í dag,“ segir hann.
Sjö brýr metnar dauðagildrur
Hér fer á eftir erindi Sigurpáls til umhverfis- og samgöngunefndar, frá í apríl 2016:
„Við lestur samgönguáætlunar 2015-2018 er enga áætlun er að sjá um hversu hratt verður farið í að fækka einbreiðum brúm, svartblettum í umferðinni, en þær eru 39 alls á hringveginum. í Ríki Vatnajökuls, sunnanmeginn eru 21 einbreiðar brýr. Af þeim eru 7 metnar dauðagildur samkvæmt áhættumati undirritaðs. Fjórar brýr eru á útleið en 17 eftir. Engin áætlun er til um útrýmingu þeirra.
Í fyrstu umræðu sagði innanríkisráðherra, Ólöf Nordal um einbreiðar brýr: „Við höfum stundum gælt við það að gaman væri að fara í átak um það að útrýma algjörlega einbreiðum brúm. Til þess þarf verulega forgangsröðun í þá átt.“
Því þarf að breyta forgangsröðun í samgönguáætlun 2015-2018 treysta innviði og setja útrýmingu á einbreiðum brúm í hæsta forgang en það er mikið umferðaröryggismál, gera metnaðarfulla áætlun, landsmönnum og ferðamönnum til heilla. Endurgera áhættumat, finna hættulegustu blettina og hefja strax framkvæmdir. Á meðan útrýming á sér stað þarf að efla forvarnir stórlega.
Einhverjar krónur eru settir í merkingu einbreiðra brúa í sumar en ég óttast að það sé allt of lítið. Því þarf að fylgjast vel með því. Auka þarf fjármagn í forvarnir og öryggismál. Arðsemi fjárfestingarinnar (ROI) er mikið.
Rökstuðningur
Ég átti leið um Suðurland um Páskana, ferðaðist í bíl á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur og það var geysileg umferð erlendra ferðamanna. Vandræði að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. Enda ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi og ferðamenn eiga góða þjónustu og tryggt öryggi skilið.
Í Ríki Vatnajökuls er hættuástand vegna 21 einbreiðra brúa. Banaslys varð við Hólá í lok síðasta árs og alvarlegt slys við Stigá sem er næsta brú við Hólá. Einbreiðar brýr voru ódýrari í byggingu, það er ástæðan fyrir tilveru þeirra. Nú er öldin önnur. Ég tók mynd af öllum einbreiðu brúnum og framkvæmdi áhættumat og læt það fylgja með, ókeypis. Það er mín samfélagsleg ábyrgð.
Allar einbreiðu brýrnar lenda í hættuflokknum mikil hætta og 7 brýr eða þriðjungur lendir í flokknum dauðagildra.“
Alvarlegum slysum fækkaði þar til í gær
Sigurpáll segist hafa farið aftur sömu leið í ágúst 2016 og lækkað áhættumat sitt í kjölfarið, enda hafi verið búið að grípa til ráðstafana.
„Alvarlegum slysum fækkaði þangað til í gær,“ segir hann.
Myndband sem Sigurpáll tók af brúnni við Núpsvötn.