Varaformaður Viðreisnar vill skoða kosti raforkusölu með sæstreng til Evrópu

Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar.

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, gagnrýnir andstæðinga þriðja orkupakkans harðlega og sakar þá um lýðskrum og fullkomna vanþekkingu á málinu. Hann kveðst hlakka til umræðna um málið á þingi í næstu viku, en segir að þar megi eiga „von á löngum en sjálfsagt ekkert of gáfulegum umræðum“.

„Það versta er þó við ómerkilegt lýðskrum sem þetta að umræðan færist frá því sem raunverulega skiptir máli. Það væri óskandi að við værum að ræða af yfirvegun kosti þess og galla að tengjast öðrum raforkumörkuðum. Það væri óskandi að við værum að ræða mikilvægi sameiginlegs orkumarkaðar Evrópusambandsins fyrir umhverfið. Það væri óskandi að þeir þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi, sem hæst hafa í þessari umræðu, byggju yfir örlítilli framsýni fyrir Íslands hönd. En því er því miður ekki til að dreifa. Þess í stað er gripið til hræðsluáróðurs popúlistans. Reynt að draga upp mynd af hinum illa óvini í Evrópu sem ætli hér að ræna af okkur auðlindunum með stuðningi „ótýndra landráðamanna“,“ segir Þorsteinn í færslu á fésbókinni í morgun.

Óhætt er að segja, að varaformaður Viðreisnar, sé fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans og hann setur enga fyrirvara um lagningu sæstrengs, heldur vill hann skoða kosti þess að selja raforku gegnum hann.

„Í fyrsta lagi hefur sameiginlegur raforkumarkaður Evrópusambandsins stuðlað að stórbættri orkunýtingu innan sambandsins og þar með átt veigamikinn þátt í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuframleiðslu. Sameiginlegur orkumarkaður hjálpar m.a. við að auka orkuöryggi og jafna sveiflur í dreifikerfinu vegna óstöðugrar raforkuframleiðslu frá vind- og sólarorkuverum, sem hafa einmitt leikið lykilhlutverk í minnkandi losun frá raforkuframleiðslu innan ríkja sambandsins. Þess utan stuðlar sameiginlegur markaður að aukinni samkeppni og er því til verulegra hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki. Ergo — hér eru heldur göfugri markmið á ferðinni heldur en að ræna þjóðir auðlindum sínum eins og lýðskrumararnir vilja halda fram.

Í öðru lagi eigum við að skoða með opnum huga hvort tenging okkar við sameiginlegan raforkumarkað ESB sé áhugaverður kostur fyrir okkur. Sú ákvörðun Norðmanna að fjárfesta í tengingu við evrópska markaðinn skýrist nefnilega ekki af því að landinu sé stýrt af ótýndum landráðamönnum heldur af því að tengingin skilar Norðmönnum miklum ábata. Hún er skynsamleg. Hún stuðlar að auknu raforkuöryggi og um leið hagnast Norðmenn ágætlega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist til að mynda.

Orkan er ekki lengur „strönduð“ eins og það kallast heldur eiga Norðmenn kost á því að flytja hana út ef stóriðjan vill ekki greiða uppsett verð. Að einblína á möguleg verðlagsáhrif heima fyrir, líkt og lýðskrumarar gera, er álíka gáfulegt og að banna fiskútflutning okkar þar sem verð á ýsu hér heima kunni að vera hærra fyrir vikið.

Fyrirlitlegri stjórnmál er vart hægt að stunda.

Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna. Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri. Og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Til dæmis með því að fella niður virðisauka á sölu raforku til heimilisnotkunar. Ræðum kosti þessa og galla en nálgumst ekki málið með heimóttarskap og hræðsluáróðri.

Þessi umræða endurspeglar þröngsýni og einangrunarhyggju þeirra sem halda henni hæst á lofti. Þar er ekki til að dreifa þeirri framsýni sem ráðamenn fyrri tíma sýndu með því að leggja höfuðáherslu á þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og alþjóðaviðskiptum. Þá sýn og stefnu má rekja allt aftur til Jóns Forseta, sem var eindreginn stuðningsmaður þess að rjúfa einangrun Íslendinga og að við yrðum þjóð á meðal þjóða. Sjálfstæð og fullvalda og full sjálfstrausts til að nýta okkur sjálfstæðið til samninga við aðrar þjóðir til að tryggja og treysta hagsmuni okkar sem best.

Sú stefna og framsýni hefur öðru fremur tryggt okkur lífskjör á við það sem best gerist í heiminum. Þröngsýni og einangrunarhyggja lýðskrumarans grefur hins vegar með beinum hætti undan hagsmunum þjóðarinnar. Með málflutningi sem þeim er alið á ótta og fordómum í þeim tilgangi einum að afla sér atkvæða. Fyrirlitlegri stjórnmál er vart hægt að stunda.

Ég hlakka til umræðunnar á þingi í vikunni. Það er kominn tími til að taka þessa umræðu af einhverju viti,“ segir Þorsteinn Víglundsson.