Varð Samherjamálið til í þorrablóti austur á fjörðum?

Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks á Ríkisútvarpinu.

„Helgi Seljan, fréttamaður Kastljóss Ríkisútvarpsins, var staddur á þorrablóti austur á fjörðum snemma árs 2012,“ segir í bókinni Gjaldeyriseftirlitið eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing.

Þar er m.a. vikið að upphafi þess að Seðlabankinn fór þá leið að kæra Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.

„Í þorrablótinu sagði fyrrverandi sjómaður Síldarvinnslunnar á Neskaupstað honum frá vangaveltum sínum um að Samherji seldi karfa til dótturfélaga sinna erlendis á undirverði.“

Björn Jón Bragason rithöfundur og sagnfræðingur.

Helgi hélt því á fund starfsmanna Gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í febrúar 2012, segir í bókinni. „Eftir fundinn með Helga Seljan varð Samherji brátt á allra vitorði innan Gjaldeyriseftirlitsins.“

Kastljós geri grein fyrir sínum hlut

Andrés Magnússon, fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins, telur að forsvarsmenn Kastljóss verði að gera grein fyrir sínum hlut varðandi Samherjamálið, nú þegar Hæstiréttur hefur endanlega hreinsað fyrirtækið af öllum ávirðingum um brot á lögum um gjaldeyrishöft, tekjuskatt og skilaskyldu.

Í Viðskiptablaðinu í dag er bent á að málið hafi einmitt hafist í fjölmiðlum.

„Þegar rannsókn sérstaks saksóknara, Seðlabankans og tollstjóraembættisins á meintum gjaldeyrisbrotum Samherja hófst, var frá því greint að tilefni hennar væru ábendingar starfsmanna Kastljóss. Rannsóknarblaðamenn þess höfðu þá skoðað málefni tengd útflutningi sjávarafurða og m.a. borið gögn um þau undir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Í framhaldi af því hafi rannsóknin hafist, en gjaldeyriseftirlitið hefði farið þess á leit við Kastljós að það héldi í sér til að verja mikilvæga rannsóknarhagsmuni og við því var orðið,“ segir Andrés í pistli sínum.

Andrés Magnússon fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins vill að Kastljós geri hreint fyrir sínum dyrum vegna upphafs Samherjamálsins.

„Þessar lyktir málsins, ríflega sex árum síðar, hljóta að kalla á frekari skýringar Kastljóss, viðurkenningu á að fréttin hafi reynst röng og afsökunarbeiðni. Eitthvað hefur greinilega verið bogið við gögnin, vinnslu þeirra eða heimildamennina (sem hljóta að hafa verið fleiri en einn).

Nema auðvitað að RÚV sé búið að semja um himinháa greiðslu til Samherja án þess að segja neinum,“ bætir Andrés við.