Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að verja allt að 20 milljónum króna til þess að hækka varnargarða fyrir ofan Nátthaga. Nú þegar hafa verið reistir tveir fjögurra metra háir varnargarðar og verða þeir hækkaðir í allt að átta metra.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins, segir að tilgangur framkvæmdanna sé að varna því að hraun flæði úr eldgosinu niður í Nátthaga og verja þannig Suðurstrandaveg og ljósleiðara sem liggur í mynni Nátthaga.
Fylgst er með þróun hraunrennslis og hefur hrauntjörn verið að fyllast ofarlega í Nafnlausadal. Óljóst er hversu mikið álag kæmi á varnargarðana ef fyrirstaða hrauntjarnarinnar brestur skyndilega og lagði almannavarnadeild ríkislögreglustjóra því til hækkun garðanna. Ekki er gert ráð fyrir að lengra verði gengið í hækkun þeirra.