Varnarsigur – Ferðamönnum fækkar en gistinóttum fjölgar

Ferðamönnum fækkar á árinu á meðan gistinóttum hefur fjölgað. Mynd/twitter
Jón Bjarki Bentsson.

„Þótt ferðamenn hér á landi verði líklega rétt um 2 milljónir í ár, og þar með u.þ.b. 200 þúsundum færri en 2017, er útlit fyrir að gistinætur á hótelum verði heldur fleiri í ár en í hitteðfyrra. Varnarsigur fyrir greinina, hefði maður haldið“, segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka á twitter í dag.

Svo mörg voru þau orð og þó að uppsveiflunni sé nú lokið, virðist kreppan ekki hafa skollið á með neinum látum þrátt fyrir ýmis áföll. Farið var yfir það í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem kom út 25. október sl., en helstu punktar þaðan voru eftirfarandi:

Hjól hagkerfisins snúast hægar næsta kastið. 0,1% samdráttur VLF í ár, en 1,3% vöxtur árið 2020 og 2,8% vöxtur árið 2021.

  • Sveiflur í útflutningi skýra sveifluna að miklum hluta.
  • Útflutningur dregst saman um 6,0% í ár en vex um 1,1% árið 2020.
  • Áfram afgangur af utanríkisviðskiptum. 3,5% af VLF í ár en 2,4% af VLF árið 2020.
  • Verðbólga skapleg á komandi misserum 3,1% á þessu ári en 2,6% árið 2020.
  • Hægir tímabundið á vexti kaupmáttar launa. 1,8% í ár en 1,9% árið 2020.
  • Atvinnuleysi eykst á komandi misserum. 3,6% í ár og 4,2% á árinu 2020.