Vaxandi efasemdir um að Kínverjir segi satt um fjölda látinna

Það er erfitt fyrir hugsandi fólk að koma því heim og saman að Kínverjar hafi á undraskömmum tíma náð tökum á Kórónaveirunni þar í landi og þetta fjölmennasta ríki veraldar — þar sem veiran kom fyrst fram — sé ekki lengur með flest staðfest tilfelli eða fjölda látinna.

Hvernig geta Ítalir og Spánverjar verið með miklu hærri dánartíðni en Kína sem er miklu, miklu fjölmennara land? Af hverju er fjöldi tilfella nú þegar orðinn meiri í Bandaríkjunum, þar sem pestin er þó rétt að hefja innreið sína? Og hvernig stendur á því að Kínverjar virðist hreinlega hafa náð að slökkva á veirunni, einmitt þegar hörmungarnar voru hvað mestar í landinu og öll sjúkrahús virtust yfirfull?

Skýringin gæti verið einföld: Að þetta sé einfaldlega ekki satt.

Erlendir fjölmiðlar, margir af þeim virtustu í veröldinni, hafa undanfarna daga gert því skóna að miklu fleiri hafi sýkst af Kórónaveirunni í Kína en þarlend yfirvöld vilji vera láta. Og að fjöldi látinna sé miklu hærri en opinberar tölur segi til um.

Bloomberg-fréttastofan, tímaritið Time og enska stórblaðið Telegraph hafa öll kafað í málið. Haft hefur verið samband við útfararstofur og líkhús í Kína, rætt aftur og ítrekað við embættismenn og viðtöl tekin við syrgjandi fjölskyldur.

Niðurstaðan er að þetta gangi einhvern veginn ekki upp.

Mörg þúsund manns hafa þannig beðið í löngum biðröðum undanfarna daga í Wuhan til þess að bíða eftir því að fá afhent duftker með ösku látinna ástvina. Raðirna eru ógnvænlegar og duftkerin skipta þúsundum; miklu fleiri en opinberar tölur um látna af völdum Covid-19.

Vitni greina frá flutningum á allavega átta þúsund duftkerum til átta útfararstofa í Wuhan. Opinberar tölur segja hins vegar að 2.535 hafi látist í borginni. Blaðamenn hafa haft samband við sex af átta útfararstofum og þar fengust annað hvort þau svör að ekki lægi fyrir hversu mörg duftker væru til afhendingar nú, eða að þeim væri bannað að gefa það upp.

Hér má lesa ítarlega umfjöllun Time um málið.