Vaxandi líkur á að veiran snúi reglulega aftur í bylgjum

Kínverskir vísindamenn virðast komnir á þá skoðun að kórónuveirunni covid-19 verði ekki útrýmt með öllu, heldur muni hún ganga aftur og reglulega um heiminn eins og árstíðabundin inflúensa.

Vonir voru bundnar við að covid-19 rynni sitt skeið eins og frændi hennar SARS gerði fyrir sautján árum, en þær hafa farið mjög minnkandi eftir því sem læknum hefur orðið ljóst hve ólík veikindin af völdum þessara tveggja kórónuveira eru, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Þeir sem sýktust af SARS urðu flestir mjög veikir og fengu mikil einkenni, en margir sem fá covid-19 bera hana áfram einkennalausir, að því er kínverskir læknar og vísindamenn sögðu á blaðamannafundi í Beijing í Kína í gær.

Af þeim sökum sé nú líklegast að veiran verði árstíðabundin og sé komin til að vera hjá okkur mannfólkinu. Það vekur upp áleitnar spurningar um gagnsemi þess til framtíðar að loka hálfum heiminum og rúmlega það með útgöngubanni, ferðatakmörkunum og margskonar skerðingu á daglegu athafnafrelsi fólks.

Ríflega þrjú milljón staðfest smit hafa nú greinst í heiminum og yfir 210 þúsund manns hafa látist af völdum veirunnar frá því hún kom upp um áramótin í Kína.

Kínverskir læknar segjast ekki sjá þess nein merki að veiran gefi eftir þegar veðurfar fer hlýnandi, eins og margir höfðu vonast til. Hún sé vissulega viðkvæm fyrir miklum hita, en hann þurfi að fara upp í 56 gr á Celcius til að hún drepist og útilokað sé að sumarveður í einhverju landi leiði til þess.