Vaxandi líkur á hertum takmörkunum –– 11 nú með COVID-19 á Landspítalanum

Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi Almannavarna. / Júlíus Sigurjónsson LRH.

Samkvæmt heimildum Viljans eru nú vaxandi líkur á að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir legg til hertar samkomutakmarkanir innanlands við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þar sem hægt gengur að draga úr nýgengi þriðju bylgju veirufaraldursins hér á landi og álag á Landspítalann eykst dag frá degi.

Þórólfur mun þó að líkindum ekki tilkynna um hertar aðgerðir á upplýsingafundi síðar í dag, sem haldinn verður á óvenjulegum tíma, eða kl. 15.

Sóttvarnalæknir fundaði með viðbragðsstjórn Landspítalans í gær, en þrír voru lagðir inn á spítalann í gær með COVID-19. Eru nú alls 11 þar inniliggjandi, þar af tveir á gjörgæsludeild. Hefur sjúklingum með veiruna fjölgað um níu á aðeins sex dögum.

Samkvæmt heimildum Viljans er aukning alvarlegra veikinda mikið áhyggjuefni sóttvarnayfirvalda sem og dreifing veirunnar um land allt. Ný smit virðast lítt eða ekkert berast inn til landsins eftir að krafan um tvöfalda skimun og sóttkví þess á milli var sett, en nýgengið eykst þó dag frá degi.

Forsvarsmenn á Landspítalanum líta málið alvarlegum augum og hafa einnig áhyggjur af mönnunarvanda, þar sem fjöldi starfsmanna er annað hvort í sóttkví eða einangrun. Spítalinn var settur á hættustig á dögunum.

Nýgengið (fjöldi nýrra smita sl. fjórtán daga á hverja hundrað þúsund íbúa) er nú 145,4 og alls greindust 34 með veiruna í gær. Virk smit á landamærum voru 4.

Nú eru 582 í einangrun og alls 1697 manns í sóttkví.