Veðurfræðingur: Róttæk hugmynd en ekki raunhæf

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að áform um pálmaútilistaverk í nýrri Vogabyggð sé róttæk hugmynd, en því miður ekki raunhæf.

Í pistli á veðursíðu sinni á fésbók segist Einar hafa séð álit séð álit þriggja garðyrkjumanna á pálma-útilistaverkinu. Hafsteinn Hafliðason, Guðríður Helgadóttir og Jóhann Pálsson fv. garðyrkjustjóri Rvk. hafi öll bent á það að þessi hugmynd sé óraunhæf. Þó hægt sé að rækta banana og aðrar hitabeltisplöntur í upphituðum gróðurhúsum eru skilyrði í glerhólkunum önnur. Snýst ekki bara um hita, heldur líka birtu, raka og ekki síst hita í rótarkerfi. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

„Höfum hugfast að þarna er verið að taka plöntu eins langt frá sínum eðlilegu umhverfisskilyrðum og hugsast getur. Eiginlega sambærilegt við það að hafa hvítabjörn til sýnis á sjóðheitum stað eins og Dubai. Slíkt er í flestra huga ekkert annað en dýraníð, jafnvel þó búrið og vatnsgryfjan væru inni við. 

Pálmarnir drepast vitanlega hér uppi á Íslandi, þeir þola ekki langan birtusnauðan veturinn, þrátt fyrir upphitun í glerhjúpnum. Nema ef vera slyldi í stærra gróðurhúsi með lýsingu og nákvæmri stýringu hita og raka sem næði einnig til jarðvegs,“ segir Einar.

„Mér finnst þetta mál og réttlæting þess af kjörnum fulltrúum í Reykjavík eiginlega bera vott um skort á jarðtengingu og röklegri skynsemi. Og embættismennirnir í borginni hlýða eins og þeirra er lenska og fylgja með í vitleysunni,“ segir Einar og bætir því við að hann vilji endilega að listaverk séu sett á torgið. Dæmi um nýleg vel heppnuð útilistaverk í Reykjavík séu Þúfa Ólafar Nordal og göngu- og hjólabrúin þarna steinsnar frá Vogabyggð.