Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og fv. formaður Fjárlaganefndar, segir Jón Gunnarsson, starfandi formann umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og nýjan ritara Sjálfatæðisflokksins, fjalla um nýjan samgöngusamning sem liggur enn óundirritaður með allt öðrum hætti en kynnt hafi verið fyrir sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu s.l. miðvikudag.
Þykir henni þetta benda til þess að annað hvort hafi Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra farið offari í fjölmiðlum að undanförnu og án samþykktar Sjálfstæðisflokksins, eða hitt að stjórnarflokkarnir þoli ekki umræðuna/álagið sem skapaðist og eru komnir á flótta frá samkomulaginu.
Vigdís segir einna alvarlegast að til standi að fara grísku leiðina, þ.e. að stofna nýtt félag (ohf, bs) en nú með splunkunýrri aðferð, þ.e. félag sem er í eigu ríkisins og sveitarfélaganna.
„Þegar svona félög eru stofnuð lifa þau sjálfstæðu lífi og eftirlit kjörinna fulltrúa er aftengt og verða þau sjálfkkrafa fylgihnettir í A-hluta sveitarfélaga og koma aðeins fram í samstæðureikningsskilum. Sama birting er hjá ríkinu.
Við þekkjum öll svona félög – eins og t.d. Nýja Landsspítalann, Isavia, Íslandspóst, RÚV og Orkuveituna. Þau lifa sjálfstæðu lífi og stjórnendur þeirra geta sólundað miklu fjármagni — en ábyrgðin er alltaf hins opinbera – þ.e. hjá skattgreiðendum,“ segir Vigdís.
Hún bendir á að allt Keldnalandið eigi að renna inn í þetta félag af hálfu ríkisins og sé það metið á 15 milljarða. Tafagjöld/vegtollar séu áætlaðir um 60 milljarðar. Ríkið eigi að skila um 50 milljörðum og sveitarfélögin um 15 milljörðum.
Hún segir sláandi að ekki sé gert ráð fyrir Sundabraut inn í þessu samkomulagi og það skýrt með útúrsnúningi um að hún fari sérstaklega í einkaframkvæmd.
„Að lokum — þessi samningur er ekkert annað en tvísköttun á fólkið í landinu,“ segir Vigdís.