Vegtollar, stofnbrautir og borgarlína: Hvað felst í stóra samgöngupakkanum?

Frá undirritun samkomulagsins í Ráðherrabústaðnum.

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes hafa undirritað tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.

Samkomulaginu er ýmist fagnað, eða það gagnrýnt harðelag og bent á að Alþingi hafi ekki samþykkt fjárútlátin og eftir eigi að ræða þau í viðkomandi sveitarfélögun, en Viljinn tekur hér saman helstu þætti þess.

Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsa-lofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Markmið samkomulagsins eru fjórþætt:

  • Tryggja greiðari samgöngur, minnka tafir og styðja við fjölbreyttari ferðamáta. 
  • Byggja upp sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag með bættum almenningssamgöngum, orkuskiptum og breyttum ferðavenjum.
  • Sérstök áhersla á umferðaröryggi og að draga stórlega úr slysum á fólki.
  • Rík áhersla á að tryggja samvinnu og sameiginlega sýn á verkefnið.

Fjárfesting upp á 120 milljarða króna

Aðilar að samkomulaginu segja að það feli í sér einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar hér á landi til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Þess í stað verði þetta allt gert á fimmtán árum. Mengun vegna svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda hafi stóraukist. Verði ekkert að gert, muni bílaumferð aukast um að minnsta kosti 40% á næstu 15 árum. Til að mæta þessu sé nauðsynlegt að flýta samgönguframkvæmdum.

„Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu er 120 milljarðar. Ríkið mun leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum kr. Hún verður tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins.

Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.

Við útfærslu framkvæmda verður sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.

Félag í eigu ríkis og sveitarfélaga verður stofnað um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra. Ríkið skuldbindur sig til að leggja uppbyggingarland að Keldum inn í félagið og mun ábati af þróun þess renna til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.“ sagði í glærukynningu vegna átaksins í gær.

Sérstök fjármögnun

Vegakerfið á Íslandi hefur verið hingað til verið fjármagnað með bensín- og olíugjöldum. Hlutfall vistvænna ökutækja eykst hratt og segja spár að strax árið 2025 hafi tekjur af bensín- og olíugjöldum lækkað verulega.

„Endurskoðun stendur nú yfir á tekjustofnum ríkisins vegna ökutækja og eldsneytis vegna orkuskipta. Hluti þeirrar vinnu verður að breyta gjaldtöku með þeim hætti að í ríkari mæli verði treyst á gjöld af umferð í stað bensín- og olíugjalda. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að félagið, sem stofnað verður um framkvæmdirnar, geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins. Önnur fjármögnun félagsins gæti verið í formi sérstakra ríkisframlaga eða hlutdeild í öðrum tekjustofnum tengdum samgöngum.

Áform eru um að taka upp sértæka gjaldtöku víðar á landinu til að fjármagna stærri samgönguframkvæmdir og rekstur jarðganga. Dæmi um þetta eru tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi ásamt láglendisvegi um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall,“ segir þar ennfremur.

Helstu framkvæmdir samkvæmt samkomulaginu

Framkvæmdir   Upphaf Lok

Vesturlandsvegur: Skarhólabraut – Hafravatnsvegur      2019       2020

Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur – Krísuvíkurvegur         2019       2020

Suðurlandsvegur: Bæjarháls – Vesturlandsvegur              2021       2021

Reykjanesbraut: Gatnamót við Bústaðaveg         2021      2021

Arnarnesvegur: Rjúpnavegur – Breiðholtsbraut 2021      2021

Sæbrautarstokkur: Vesturlandsvegur – Holtavegur          2021       2022

Borgarlína: Ártún – Hlemmur     2021      2023

Borgarlína: Hamraborg – Hlemmur          2021      2023

Miklabrautarstokkur: Snorrabraut – Rauðarárstígur        2022       2023

Borgarlína: Hamraborg – Lindir  2023      2024

Borgarlína: Mjódd – BSÍ 2024      2026

Miklabrautarstokkur: Rauðarárstígur – Kringlumýrarbraut            2024      2026

Reykjanesbraut: Álftanesvegur – Lækjargata      2024      2028

Suðurlandsvegur: Norðlingavað – Bæjarháls       2027      2027

Borgarlína: Kringlan – Fjörður    2027      2030

Hafnarfjarðarvegur: Stokkur í Garðabæ 2028      2030

Borgarlína: Ártún – Spöng           2029      2031

Borgarlína: Ártún – Mosfellsbær              2031      2033

Sáttmálinn í tölum

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu – Kynning