Veiran gengur aftur laus í samfélaginu: Þriggja leitað sem virtu ekki sóttkví

Við Íslendingar vorum minnt heldur harkalega á það um helgina, að næsta bylgja kórónuveirunnar Covid-19 er handan við hornið með fregnum af fjölda nýrra tilfella í Beijing, höfuðborg Kína, undanfarna daga, fyrirhugaðri opnun landsins fyrir ferðamönnum á miðnætti í kvöld og máli nokkurra rúmenskra karlmanna sem komu til landsins á þriðjudag, virtu reglur um sóttkví að vettugi, fóru þess í stað um landið að ræna og rupla og virðast aukinheldur smitaðir af veirunni.

Alls eru nú sextán lögreglumenn komnir í tveggja vikna sóttkví vegna þessa máls. Krafist hefur verið varðhalds yfir þremur þessara manna og einangrunar, en þriggja er enn leitað. Þeir áttu að vera í sóttkví á tilteknum stað sem þeir höfðu gefið upp, en eru ekkert þar og hafa því undanfarið farið um samfélagið mögulega smitaðir með tilheyrandi hættu fyrir alla þá sem á vegi þeirra hafa orðið.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu seint í gærkvöldi, þar sem lýst er eftir þremur rúmenskum karlmönnum, sem komu til landsins fyrripart vikunnar í sex manna hópi, segir að þeir kunni mögulega að vera smitaðir af COVID-19. Þeir hafi virt reglur um sóttkví að vettugi, tveir samferðamanna þeirra hafi verið greindir með veiruna og því leiki grunur á að það sama geti átt við um þremenningana.

„Mennirnir sem leitað er að heita Pioaru Alexandru Ionut, Adrian Badiu og Madalin Sorin Dragomir. Ionut og Dragomir eru á þrítugsaldri, en Badiu er á fertugsaldri. Þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir þremenninganna, eða vita hvar þeir eru niðurkomnir, eru vinsamlegast beðnir um að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112,“ sagði þar ennfremur og birtar myndir af tveimur mannanna, eins og sjá má í þessari frétt.