Veiran kom til landsins með farþegum fyrsta daginn

Blóðsýni sem notað er til að finna kórónaveiruna.

Tveir greindust með kórónuveiruna Covid-19 í skimun í Leifsstöð í gær, samkvæmt upplýsingum sem birst hafa á upplýsingasíðu Almannavarna og Embættis landlæknis.

Þar með gekk eftir spá Bryndísar Sigurðardóttur smitsjúkdómalæknis á Landspítalanum, sem sagði á málþingi Háskólans á dögunum að nýsmit myndu berast til landsins í fyrstu vélunum um leið og landamærin yrðu aftur opnuð fyrir ferðamönnum.

Alls voru sýni tekin úr 900 manns í gær, en börn eru undanskilin kröfum um sýnatöku eða sóttkví.

Ekki liggur fyrir hvort einhverjir farþegar um borð í Norrænu voru sýktir, en hún kom til landsins í morgun frá Færeyjum og voru farþegar skimaðir við komuna til Seyðisfjarðar.

Um helgina greindust tvö smit í rúmenskum mönnum, eins og Viljinn skýrði frá. Nokkur tilfelli um brot á reglum um sóttkví hafa komið upp undanfarna daga og er þriggja erlendra manna enn leitað í því tilliti.

Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar kl. 14 í dag þar sem þríeykið situr fyrir svörum.