Veit ekki betur en Samfylkingin sé frá stofnun hlynnt aðild Íslands að NATO

Heimir Már fréttamaður Pétursson. / Twitter.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2 og fv. framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, eins þeirra flokka sem runnu inn í sameinaða Samfylkingu, undrast hvernig talað er fyrir stefnu flokksins gagnvart aðildinni að NATO og uppbyggingu Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra og flokk hennar Vinstri græna, fyrir að leyna raunverulegum tilgangi viðræðna við varaforseta Bandaríkjanna á fyrirhuguðum fundi hér á landi á næstu dögum.

„Ég hef hins vegar gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar um aukna hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna í Keflavík. Ég hef gagnrýnt að til standi að ræða þetta við Pence þegar hann kemur. Og ég hef gagnrýnt hvernig ríkisstjórnin ætlaði að leyna þessu umræðuefni,“ segir Guðmundur Andri í færslu á fésbókinni.

Við þessu bregst Heimir Már, sem þekkir vel til þegar kemur að stefnu Samfylkingarinnar í varnar- og utanríkismálum.

Hann segir:

„Nú hef ég fylgst vel með svo kallaðri uppbyggingu Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár og þykir miður hvernig sumir túlka þetta sem einhvers konar endurkomu bandarísks herafla til Íslands.

Staðreyndirnar eru í sem fæstum orðum þessar:

  • 1. Ísland er í NATO og þar með er ákveðinn hluti Keflavíkurflugvallar tileinkaður aðild okkar á tilteknu öryggissvæði með flugskýlum bæði fyrir orrustuþotur og stærri flugvélar.
  • 2. Stóra flugskýlið er úrelt þannig að nýjustu eftirlitsflugvélar NATO komast ekki inn í skýlið. Breikka þarf hurð, sem verður væntanlega stærsta og dýrasta hurð á Íslandi og setja upp ýmsan búnað í skýlinu til að þjónusta þessar flugvélar.
  • 3. Kostnaðurinn við þetta er metinn á yfir milljarð íslenskra króna sem Bandaríkjamenn borga, eins og meirihlutann af kostnaði NATO.
  • 4. Ísland er enn með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin þannig að Bandaríkjastjórn hefur staðið og stendur enn undir miklum meirihluta útgjalda til varnarmála Íslands.
  • 5. Það eru engin áform uppi hjá bandarískum yfirvöldum að flytja varanlega herafla til Íslands á ný.
  • 6. Bandaríkjamenn sem og aðrar bandalagsþjóðir NATO hafa í mörg ár skipst á að sinna loftrýmiseftirliti yfir og í kringum Ísland. Lítið fór fyrir þessu á fyrstu árum eftir hrun múrsins vegna þýðu í samskiptum við Rússland. En á undanförnum árum hafa Rússar hins vegar aukið hernaðarumsvif sín nálægt landamærum Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna og aukið flug á norður Atlantshafi og umferð herskipa, meðal annars yfir og umkring Ísland.
  • 7. Ég veit ekki betur en Samfylkingin sé frá stofnun hlynnt aðild Íslands að NATO. Aðildinni fylgja bæði ábyrgð og skyldur, meðal annars fjárútlát og þátttaka Íslands í ýmsum verkefnum á vegum NATO.
  • 8. Það er hálfgert lýðskrum að halda því fram að þær framkvæmdir sem standa fyrir dyrum á Keflavíkurflugvelli, sem verið hefur viðhaldslítill frá brottför hersins árið 2006, þýði einhvers konar endurkomu eða útþenslu Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli.
  • 9. Samfylkingin getur hins vegar breytt stefnu sinni gagnvart NATO með landsfundarsamþykkt og sé meirihlutavilji til þess innan flokksins ætti einhverjir að taka sig saman og leggja heiðarlega fram slíka tillögu í stað þess að grafa undan aðild okkar að NATO.“

Og Heimir Már bætir við:

„Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér gagnvart Atlantshafsbandalaginu, rétt eins og EES og Evrópusambandinu.“