Veitt hæli vegna samkynhneigðar, en áreita svo konur kynferðislega

Rannsóknir lögreglu leiða í ljós skipulagða misnotkun tiltekinna erlendra afbrotamanna og -hópa á opinberum þjónustukerfum á Íslandi. Líklegt er að í einhverjum tilvikum njóti hópar þessir aðstoðar íslenskra ríkisborgara og/eða erlendra manna sem búsettir eru á Íslandi. Þær upplýsingar sem lögregla miðlar til greiningardeildar ríkislögreglustjóra sýna án nokkurs vafa að brotalamir er að finna í opinberum kerfum, jafnt innan stofnana sem og í samstarfi þeirra. Þess eru dæmi að karlmenn, sem fengið hafa hæli hér á grundvelli eigin fullyrðinga um samkynhneigð, hafi verið kærðir hér fyrir kynferðislega áreitni gegn konum.

Þetta kemur fram í skýrslu Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, sem kynnt var í vikunni. Þar segir að lögregla þekki dæmi þess að einstaklingar tengdir hópum þessum hafi komið til landsins undir því yfirskini að leita alþjóðlegrar verndar.

„Með tilliti til þess sem að ofan greinir er mikilvægt að hafa í huga að misnotkun kann að eiga sér stað í þeim tilvikum sem aðkomumaður/umsækjandi um alþjóðlega vernd á allt sitt undir
tengiliðum hér á landi sem geta krafið viðkomandi um fé fyrir veitta þjónustu og jafnvel tekið hluta launa hans sem greiðslu. Í einhverjum tilvikum eru tengiliðir hér á landi sem þekkja staðhætti og móttökukerfi og veita einstaklingum og jafnvel hópum aðstoð.

Upplýsingar um fjölda og stærð skipulagðra hópa afbrotamanna á Íslandi eru brotakenndar nokkuð en engu að síður má fullyrða að fjöldi og umsvif, stærð þeirra og styrkur fer vaxandi.

Margir þeirra skipulögðu glæpahópa sem hafa náð fótfestu á Íslandi koma frá Austur-Evrópu, ríkjum á borð við Pólland, Litháen, Rúmeníu og Albaníu. Greiningardeild ríkislögreglustjóra er t.a.m. kunnugt um þrjá hópa manna sem allir koma frá einu ríki í Austur-Evrópu. Hóparnir halda uppi skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi sem í senn er víðfeðm og ábatasöm.

Lögregla telur að allt að 50 manns kunni að tengjast þessari starfsemi en taka ber fram að með því er ekki fullyrt að allir séu þeir ábyrgir gerendur. Hugsanlegt er að einhverjir þeirra sæti nauðung, jafnvel vinnumansali, og séu neyddir til að láta afrakstur afbrota og/eða „svartrar vinnu“ af hendi til
leiðtoga hópsins og jafnvel fleiri einstaklinga.“

Í skýrslunni segir einnig:

„Rannsóknir lögreglu leiða í ljós að einstaklingum sem tengjast þessum þremur hópum hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grundvelli kynhneigðar. Nokkrir þessara karlmanna frá íslömsku ríki hafa verið kærðir fyrir kynferðislega áreitni gagnvart konum hér á landi.

Hópar þessir hafa án teljandi vandkvæð aflað sér kennitalna á Íslandi og í kjölfar þess opnað bankareikninga og jafnvel stofnað fyrirtæki. Kennitölur og bankareikningar eru grunnþættir í peningaþvætti og tilfærslum á fjármunum sem aflað hefur verið með skipulagðri brotastarfsemi.

Mál sem lögregla hefur haft til rannsóknar sýna að nokkrir meðlimir þessara hópa hafi nýtt sömu kennitölu og þannig m.a. getað leynt veru sinni í landinu en stundað „svarta vinnu“ á sama tíma. Leiðtogi eins hópsins hefur á síðustu misserum sent tugi milljóna króna úr landi. Sami maður hefur þegið félagslega aðstoð af margvíslegu tagi, þ. á m. fjárhagsaðstoð á sama tíma.

Fyrirliggjandi upplýsingar eru á þann veg að innan hópa þessara sé að finna réttnefnda „kerfisfræðinga“; einstaklinga sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á kerfum opinberrar þjónustu og félagsaðstoðar hér á landi. Hátt flækjustig innan opinberra kerfa á Íslandi nýta þessir menn til fullnustu, m.a. með notkun á fölsuðum skilríkjum og fjölda tilbúinna nafna. Með þessu móti getur það kostað mikla vinnu að afla grundvallarupplýsinga um viðkomandi svo sem rétt nafn, fæðingarland og þess háttar.

Fleiri erlendir hópar afbrotamanna hafa náð fótfestu á Íslandi og lögreglu er kunnugt um að þeir misnota einnig skipulega móttökukerfi og félagslega aðstoð sem starfrækt er hér á landi í því skyni að aðstoða fólk í raunverulegri neyð.“