Verðum að byggja á staðreyndum og vísindum en ekki sýndarmennsku

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, sagðist á Alþingi í dag telja rétt að aukin losun gróðurhúsalofttegunda, koltvísýrings og annarra slíkra lofttegunda, hafi áhrif á loftslagið og ýti undir hlýnun jarðar. Þar sem við viljum helst hafa jörðina tiltölulega mikið eins og hún hefur verið á meðan við mannfólkið höfum dvalið þar þá viljum við stilla þeirri hlýnun í hóf.

Þetta kom fram í svari Sigmundar Davíðs við fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, sem innti hann eftir því hvort hann tæki ekki undir þær kenningar að hlýnun í heiminum væri af manna völdum.

Sigmundur Davíð sagðist telja ákaflega mikilvægt að bregðast við, en ítrekaði þó það sem hann hefði sagt áður, að það verði ekki gert nema einmitt með því að byggja á staðreyndum og vísindum en ekki með sýndarmennsku.

„Það er það sem ég hef gert athugasemdir við í umhverfismálum og í loftslagsmálum ekki hvað síst, að mér finnst viðbrögðin byggjast allt of mikið á sýndarmennsku, aðgerðum sem eru ekki til þess fallnar að hafa raunveruleg áhrif.

Ég nefni sem dæmi það sem virðist vera aðalviðbrögðin á Íslandi, að moka ofan í skurði, sem ég fæ ekki betur séð en að geti haft þveröfug áhrif með aukinni losun metans sem er 23 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Betra væri þá að rækta tré á þessum túnum. Allt snýst þetta um að aðgerðirnar séu til þess fallnar að virka og í samræmi við umfang vandans. Þess vegna var gaman að heyra háttvirtan þingmann vísa t.d. í Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaveðurfræðistofnunina því að ég hef á undanförnum dögum tekið mjög undir áherslur framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sem hefur einmitt verið að benda á þessa sömu hluti. Við verðum að nálgast þetta út frá vísindum og staðreyndum en ekki út frá ótta eða hræðsluáróðri,“ sagði Sigmundur Davíð.