Verður byggt allt of mikið, eina ferðina enn?

„Þó það hafi ekki verið rætt mikið opinberlega lítur út fyrir að núverandi og komandi framboð af nýjum íbúðum hjálpi ekki mikið til við að vinna á þeim vandamálum sem nú er verið að fjalla um við samningaborð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Það er ekki ólíklegt að mikið framboð sé og verði á íbúðum sem fáir vilja og enn færri geta keypt.

Þetta segir í nýútkominni Hagsjá Landsbankans. Þar er bent á, að á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hafi meðalstærð nýrra seldra íbúða verið um 103 m2 og meðalverð á fermetra um 521 þús. kr. Verð fyrir meðalíbúð var því tæpar 54 m. kr. sem er töluvert hærri upphæð en margir ráði við.

„Miðað við þessa stöðu er ekki hægt að útiloka að á næstu árum verði offramboð á nýbyggðum íbúðum. Verði farið út í miklar nýbyggingar á húsnæði sem er talið henta til þess að leysa þau vandamál sem verið er að ræða í kjarasamningum stendur sú spurning eftir hverjir eigi að kaupa allt það húsnæði sem nú er á leið inn á markað,“ segja greinendur Landsbankans.

„Samkvæmt talningum Samtaka iðnaðarins, sem eru einu haldbæru tölurnar sem til eru um byggingarstarfsemi hér á landi, voru um 4.900 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu nú í haust og reiknað er með að lokið verði við að byggja samtals um 4.300 íbúðir á árunum 2018 og 2019. Það fer ekki framhjá neinum að verið er að byggja fjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Framboð nýrra íbúða hefur aukist mikið og það á eftir að aukast enn meira. Á sama tíma er verið að ræða um það við borð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar að stórauka þurfi framboð á íbúðum.

Brýnasta vandamálið í þessu öllu er að það er langur vegur á milli kaupgetu þeirra sem eiga við erfiðleika að etja í húsnæðismálum og kaupverðs nýrra íbúða. Það bil þarf að brúa með einhverjum hætti,“ segir Hagdeild Landsbankans.

Hagsjá: Verður byggt alltof mikið, einu sinni enn? (PDF)