Verður Katrín næsti framkvæmdastjóri NATO?

Forsætisráðherra með framkvæmdastjóra NATO.

Joe Biden Bandaríkjaforseti vill að fyrrverandi forsætisráðherra eða forseti bandalagsríkis verði næsti framkvæmdastjóri NATO, helst kona. Ekki náðist samstaða meðal ríkja sambandsins um hver ætti að taka við af Jens Stoltenberg og því var skipun hans enn framlengd á dögunum, að þessu sinni til eins árs. Varnarmálaráðherra Breta, sem vildi starfið en fékk ekki, sagði að líklega sé skynsamlegast að ganga út frá því til framtíðar að framkvæmdastjórinn komi frá Íslandi.

Bretar eru töluvert skúffaðir yfir því að Ben Wallace varnarmálaráðherra hafi ekki hlotið stuðning Hvíta hússins í ljósi mikilla tengsla þessara bandamanna gegn tíðina. Á ráðstefnu á vegum Tony Blair stofnunarinnar um framtíð Bretlands í gær, vék Wallace talinu að ráðningarferlinu innan NATO eða öllu heldur skort á því og líkti því við valdabaráttuna innan breska Íhaldsflokksins.

Vitað er að Biden Bandaríkjaforseti leitaði til Mark Rudde, sem senn lætur af embætti forsætisráðherra Hollands, og vildi fá hann til NATO en sá hafði ekki áhuga.

Wallace benti á að innan bandalagsins væru 31 ríki en ekkert formlegt ferli færi í gang þegar skipta ætti um framkvæmdastjóra. Enginn byði sig heldur formlega fram í embættið, þetta væri allt ákveðið í samtölum milli leiðtoga og bak við luktar dyr. Sumir töluðu fyrir mikilvægi þess að fá konu í starfið og þar með kæmu til greina þjóðarleiðtogar í Austur-Evrópu, en Frakkar og Þjóðverjar teldu þær of harðskeyttar í núverandi ástandi og því hefði ekki myndast samstaða um það heldur.

Þess vegna heldur Jens Stoltenberg enn áfram um sinn, en ljóst er að þegar stendur yfir ferli til að velja eftirmanninn. Þetta er i þriðja skiptið sem framkvæmdastjóratíð Stoltenberg er framlengd hjá sambandinu en hann hefur gegnt embættinu í níu ár.

Í erindi sínu hafði Wallace þessi lokaorð, sem vöktu nokkra kátínu fundarmanna:

„Ég sagði á einum tímapunkti að við þurfum bara öll að venjast því að framkvæmdastjórinn komi frá Íslandi.“