Verkalýðsforingjar hafna orkupakka, vilja að forsetinn neiti að skrifa undir

„Raforka er ekki eins og hver önnur vara. Ekkert bendir til annars en að raforka muni hækka í verði ef stigin verða skref í átt að einkavæðingu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í færslu á fésbókinni í kvöld þar sem hann leggst alfarið gegn innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Hann segir verkalýðshreyfinguna hafna því að hægt sé að taka svo stórar og umdeildar ákvarðanir, sem orkumál þjóðarinnar sannanlega eru, án þess að fullkomið traust og sátt ríki um málið.

„Getum við treyst kjörnum fulltrúum okkar í að taka svo stórar ákvarðanir sem snúa að orkumálum þjóðarinnar? Svona miðað við allt sem á undan er gengið?

Hin ofsafengnu viðbrögð þekktra hagsmunaafla við réttmætum spurningum og gagnrýni gefa svo sannarlega tilefni til að staldra við.

Getum við gert þá kröfu að tekin verði afstaða í svo umdeildu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin tekið upplýsta ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og þeirri reynslu sem við höfum á markaðsvæðingu innviða?“

Reynt að ná kostnaði niður

Ragnar Þór bendir á, að í nýjum lífskjarasamningi sem samþykktur var af stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar hafi áhersla verið lögð á að ná kostnaði niður og auka þannig kaupmátt í bland við launahækkanir.

„Og að félagsmenn okkar þurfi ekki að hafa áhyggjur af grunnþörfum eins og rafmagni, vatni eða húshitun. Að kostnaði við að lifa verði haldið í lágmarki og bæta þannig lífskjör til skemmri og lengri tíma, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Þetta orkupakka mál lyktar óneitanlega af sérhagsmunapoti.

Það er mikið undir fyrir félagsmenn okkar og fyrirtækin. Hærri orka þýðir hærra vöruverð og lægri kaupmátt og lakari samkeppnishæfni. Hærri orkuverð dregur úr möguleikum okkar til meiri sjálfbærni.

Það er einfaldlega of mikið undir. Sagan hefur því miður kennt okkur allt annað en lobbíistar sérhagsmunaafla keppast við að sannfæra okkur um.

Við erum kynslóðin sem hófum einkavæðingu innviða. Verum kynslóðin sem steig niður fæti!

Ég treysti því að forsetinn okkar standi undir nafni og vísi þessari ákvörðun til þjóðarinnar verði málið rekið áfram í gegnum þingið í óbreyttri mynd,“ segir formaður VR ennfremur.

Auðlindirnar dýrmætasta eign þjóðarinnar

Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ og verkalýðsforingi á Akranesi, tekur í sama streng á fésbókinni. Hann kveðst vera grjótharður andstæðingur þriðja orkupakkans.

„Það er mat mitt að dýrmætasta eign þessara þjóðar eru orkuauðlindirnar okkar og því ber okkur skylda til að tryggja ávallt full yfirráð yfir orkuauðlindum okkar og að Landsvirkjun verði ætíð í eigi þjóðarinnar,“ segir hann.

„Ég er sannfærður um að þessir orkupakkar eru vegvísar að því að við sem þjóð missum hægt og bítandi yfirráðarétti okkar yfir okkar mikilvægustu auðlind sem eru orkuauðlindirnar,“ bætir hann við.