Verkalýðsforingjar saka Fréttablaðið um falsfrétt

Forystumenn Eflingar, Verkalýðsfélagsins á Akranesi og VR saka Fréttablaðið um falsfrétt (fake-news) á forsíðu í dag, þar sem því er velt upp sem spurningu í fyrirsögn hvort brestir séu komnir í sameiginlega blokk þeirra í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins.

„Verkalýðsfélögin fjögur sem sitja saman við samningaborð Ríkissáttasemjara hafa of ólíka hagsmuni til að geta klárað viðræðurnar í samfloti, að mati heimildarmanna Fréttablaðsins innan verkalýðshreyfingarinnar,“ segir í frétt blaðsins.

Viljinn leitaði viðbragða við fréttinni hjá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, Vilhjálmi Birgissyni á Akranesi og Sólveigu Önnu Jónsdóttur hjá Eflingu, og hafna þau öll frétt Fréttablaðsins sem rangri.

„Þetta er fake-news,“ segir Ragnar Þór í samtali við Viljann. „Eins og þessu er slegið upp þá finnst mér þetta dapurleg tilraun til að véfengja styrk hópsins útávið. Þetta hefur engin áhrif á okkur sjálf og það mikla traust og samstöðuna sem er innan okkar raða,“ segir hann.

Ragnar Þór bætir við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem áróðri af þessu tagi sé beint gegn hópnum.

„Þetta er kolrangt eins og kemur fram í svari mínu í blaðinu,“ segir Vilhjálmur Birgisson. Undir þetta tekur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.