„Flestir geta verið sammála um að það ber nokkuð í milli í kjarasamningaviðræðum þennan veturinn. En þeim mun meiri ástæða er til að aðilar leggi af heilindum áherslu á sameiginlega vinnu í að komast að niðurstöðu sem bæði getur bætt lífskjör í landinu og stutt heilbrigt atvinnulíf. Hver fundur við samningaborðið færir fylkingar nær hvor annarri, nær árangri, og eflir skilning og traust milli manna í vinnu að þessum sameiginlegu markmiðum. Það hefur reynslan ítrekað sýnt síðustu áratugi.“
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, á fésbók í morgun en hugsanlegt að fjögur stéttarfélög slíti kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins ef árangur næst ekki á samningafundi hjá ríkissáttasemjara í fyrramálið.
Jóhannes Þór segir óneitanlega vonbrigði að sjá gírugar yfirlýsingar framkvæmdastjóra Eflingar og formanns VR í fjölmiðlum í gær. „Þær bera því miður ekki vott um mikla traust á því ferli sem þessi félög hafa vísað samningaviðræðum í fyrir hönd sinna félagsmanna,“ segir hann.
Hefur alltaf staðið til að fara í verkföll
Mikill fjöldi félagsmanna í Eflingu og VR starfa hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og þar á bæ hafa menn miklar áhyggjur af þróun mála, að því er heimildir Viljans herma. Innan atvinnulífsins fer svartsýni á samninga vaxandi og þeim fjölgar sem telja að Efling, VR og ný forysta ASÍ hafi allan tímann ætlað að láta sverfa til stáls, boða verkföll og knýja stjórnvöld til meiriháttar pólitískra aðgerða.
„Við erum bara peð á samningaborðinu eins og er,“ sagði einn forystumaður í stóru fyrirtæki í samtali við Viljann. Hann segir verkalýðsforystuna „vera á eftir“ ríkisstjórninni og hafi ekki mikinn áhuga á samtali við Samtök atvinnulífsins í augnablikinu.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Fréttablaðið að til lítils sé að vera í viðræðum sem ekkert þokast áfram á meðan launþegar tapi.
„Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að ef ekkert þokast í viðræðunum þá verðum við að gera eitthvað til að ýta þeim áfram,“ segir Ragnar Þór .
Samkvæmt upplýsingum Viljans er afar fátítt að viðræðum sé slitið eftir aðeins tvo til þrjá fundi hjá Ríkissáttasemjara. Sérstaklega þar sem fyrsti fundur hafi aðeins farið í upplýsingaöflun og annar fundur snúist um að fara yfir kröfur og óskir hvors aðila um sig.
Ragnar Þór gefur í skyn í áðurnefndu viðtali, að undirbúningur verkfalla sé þegar kominn á fullt. Það liggi í hlutarins eðli, að lagt verði upp með „aðgerðaáætlun um það hvernig hægt sé að þrýsta á að kröfum um mannsæmandi laun verði mætt.“