Verk­efni, sem þarf að leysa, en ekki dauðadóm­ur yfir jörð og mann­kyni

Guðni Ágústsson fv. ráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Hver ára­mót marka nýj­an tíma. Nú ættu þau að vera hlaðin bjart­sýni og krafti og vilja til að tak­ast á við hvert það verk­efni sem að hönd­um ber, mann­kyn­inu og jörðinni til bless­un­ar. En til­finn­ing­ar og von­andi öfga­spár leiða okk­ur að hel­vegi svartra skugga, um að jörðin far­ist í tíð nú­ver­andi kyn­slóðar.“

Þetta skrifar Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann bendir á að í umræðunni séu efa­semd­ar­menn, sem einnig styðjast við vís­inda­leg­ar for­send­ur, sagðir fals­spá­menn og um þá marga er rætt sem boðbera fá­fræðinn­ar.

„Ef þú vilt hafa frið ferðu í umræðuna með kór „rétt­trúnaðar­ins,“ og vel­ur þér að gráta og fylgja fjöld­an­um og full­yrðing­unni um að jörðin far­ist inn­an 30 ára og ham­far­irn­ar séu mann­in­um ein­um að kenna.

Ég hef lifað af nokkr­ar harka­leg­ar spár um heimsendi. Faðir minn sagði mér frá spá­mann­in­um, sem fór um Fló­ann bæ frá bæ fyr­ir eitt hundrað árum, og boðaði heimsendi haustið 1920 út af synd­um mann­anna. Kon­ur grétu og börn urðu hrædd og einn bóndi tók mark á spá­mann­in­um og setti ekki niður útsæðið sitt um vorið. Hann fékk eng­ar kart­öfl­ur upp um haustið. Svo bætti gamli maður­inn við „Og enn snýst jörðin.“

Greta Thunberg.

Kjarn­orku­spreng­ing­in var stærsta ógn æsku minn­ar. Nú er upp runn­in fjórða heimsenda­spá­in á 40 árum. Fyrst var það óson­lagið, svo var það súra regnið, síðan kom þús­ald­ar­bylt­ing­in eða 2000 vand­inn. Og nú er það ham­fara­hlýn­un af manna­völd­um. Dóms­dag­ur er sem sé í nánd, en þessi full­yrðing hef­ur fylgt mann­in­um frá ör­ófi alda. Í gegn­um ald­ir var kenn­ing­in trú­ar­legs eðlis nú vís­inda­legs eðlis og henni fylg­ir reynd­ar öfga­trú­in: „Vér ein­ir vit­um.“ Ég tók eft­ir því í haust í Kast­ljósi RÚV um ógn­ina að kona vís­inda­lærð efaðist um að svona væri komið og studd­ist við vís­inda­leg rök. Hún var hrein­lega of­sótt í þætt­in­um sem hin „ber­synd­uga.“ Auðvitað vissi veður­blíðan á Íslandi á enda­lok ver­ald­ar­inn­ar af manna­völd­um, hvað annað? Nú í ham­fara­veðrinu fyr­ir jól­in var það einnig sprottið af manna­völd­um, enda­lok jarðar­inn­ar blöstu við. Gamla fólkið sagði gjarn­an: „Það er ekk­ert nýtt und­ir sól­inni.“ Nú er ég gam­all sem á grön­um má sjá og ég hef lifað mörg svona veður, hlý sól­skinssum­ur og harða storma vetr­ar­vind­anna.

Páll Bergþórs­son tal­ar af visku öld­ungs­ins

Ég vil þó fagna vakn­ingu unga fólks­ins og bar­áttu Gretu Thun­berg. Sú bar­átta vinn­ur gegn brjálæðis­legri græðgi og gegn öfg­um ham­fara­flutn­inga og sóun sam­tím­ans, verði hún ekki að ham­fara­hræðslu. Okk­ur ber að draga úr of mik­illi neyslu og margt er hægt að gera til að vinna gegn hlýn­un jarðar­inn­ar. Ég vil taka und­ir hóg­vær orð sem Páll Bergþórs­son veður­fræðing­ur setti inn á „Fas­bók­ina,“ sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rök­fast­ur og stillt­ur maður í öll­um boðskap. Páll seg­ir: „Ham­fara­hlýn­un jarðar er von­andi mark­leysa.“ Svo rakti hann fjölg­un mann­kyns­ins úr 2 millj­örðum, árið 1950, í 8 millj­arða, árið 2020. Með sömu þróun væri mann­fjöld­inn orðinn 14 millj­arðar, árið 2090. Og 20 millj­arðar, árið 2160.

Páll tel­ur að fjölg­un­in sé að nálg­ast það sem jörðin ræður við og að hlýn­un­in fylgi hverri millj­arða aukn­ingu fólks. „Þarna ligg­ur hund­ur­inn graf­inn.“ Jörðin ber ekki auk­inn mann­fjölda og alls ekki þegar Asíu- og Afr­íku­lönd­in fara að gera sömu kröf­ur til lífs­nautn­ar og við ger­um í dag. Ætla má að Ísland beri eina millj­ón manna með góðu en ver­öld­in átta til tíu millj­arða manna. Stóri ger­and­inn er auðvitað iðnbylt­ing­in og óhófið, kol­in, jarðolí­an og gasið, plastið og gervi­efn­in. Nú nær sjór og gróður að taka upp helm­ing þess kolt­ví­sýr­ings sem berst inn í and­rúms­loftið. Hinn helm­ing­ur­inn safn­ast fyr­ir í loft­hjúpi jarðar og eyk­ur gróður­húsa­áhrif­in. Því er ástand lofts­lags­mál­anna verk­efni, sem þarf að leysa, en ekki dauðadóm­ur yfir jörð og mann­kyni.

Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

Ég á mér eng­an betri vís­inda­mann eða spá­mann til að fylgja í þessu efni en Pál Bergþórs­son, sem enn send­ir okk­ur veður­spár við ris sól­ar á hverj­um morgni og velt­ir vöng­um yfir vanda jarðar­inn­ar. Verk­efnið er hins­veg­ar eitt, að bjarga jörðinni fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. Mik­il­vægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðar­inn­ar og fram­leiða mat­inn sem næst hverj­um munni. Í því sam­bandi ber að minna á að land­búnaðar­vör­urn­ar fram­leiðist hér heima en komi ekki til okk­ar er­lend­is frá með flug­vél­um. Draga þarf úr öllu bruðli og muna að sjór­inn tek­ur ekki enda­laust við. Þetta er verk­efni hverr­ar fjöl­skyldu, at­vinnu­lífs­ins og rík­is­stjórna þjóðanna. En stærsti sig­ur­inn mun vinn­ast ef Sam­einuðu þjóðirn­ar koma sér sam­an um mark­viss­ar regl­ur og þeim verði fylgt. Lög­mál­in um köld og hlý veður­tíma­bil munu engu að síður halda áfram. Páll seg­ir hins­veg­ar að nú fari að kólna á ný og mann­kyni jarðar hætti að fjölga. Þar ligg­ur ákveðin lausn. En ger­um það sem við get­um gert. Ger­um það með bjart­sýni og trú. Við búum við hita og raf­magn úr end­ur­nýj­an­leg­um orku­lind­um og get­um bætt okk­ar stöðu til sjáv­ar og sveita. Heim­ur­inn á tæki­færi í sól­ar­orku, vindorku og sjáv­ar­falla­orku og Kín­verj­ar eru að farn­ir að virkja jarðvarmann. Þannig mætti áfram telja.“

Guðni bendir að lokum á að það sé lúxusvandi sem tröllríði hátta­lagi okk­ar eins og annarra efnaðra þjóða og gervi­efn­in og ruslahaug­arn­ir vitni um það. „Grát­ur í nútíð er framtíðarböl.“