„Hver áramót marka nýjan tíma. Nú ættu þau að vera hlaðin bjartsýni og krafti og vilja til að takast á við hvert það verkefni sem að höndum ber, mannkyninu og jörðinni til blessunar. En tilfinningar og vonandi öfgaspár leiða okkur að helvegi svartra skugga, um að jörðin farist í tíð núverandi kynslóðar.“
Þetta skrifar Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann bendir á að í umræðunni séu efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar.
„Ef þú vilt hafa frið ferðu í umræðuna með kór „rétttrúnaðarins,“ og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna.
Ég hef lifað af nokkrar harkalegar spár um heimsendi. Faðir minn sagði mér frá spámanninum, sem fór um Flóann bæ frá bæ fyrir eitt hundrað árum, og boðaði heimsendi haustið 1920 út af syndum mannanna. Konur grétu og börn urðu hrædd og einn bóndi tók mark á spámanninum og setti ekki niður útsæðið sitt um vorið. Hann fékk engar kartöflur upp um haustið. Svo bætti gamli maðurinn við „Og enn snýst jörðin.“

Kjarnorkusprengingin var stærsta ógn æsku minnar. Nú er upp runnin fjórða heimsendaspáin á 40 árum. Fyrst var það ósonlagið, svo var það súra regnið, síðan kom þúsaldarbyltingin eða 2000 vandinn. Og nú er það hamfarahlýnun af mannavöldum. Dómsdagur er sem sé í nánd, en þessi fullyrðing hefur fylgt manninum frá örófi alda. Í gegnum aldir var kenningin trúarlegs eðlis nú vísindalegs eðlis og henni fylgir reyndar öfgatrúin: „Vér einir vitum.“ Ég tók eftir því í haust í Kastljósi RÚV um ógnina að kona vísindalærð efaðist um að svona væri komið og studdist við vísindaleg rök. Hún var hreinlega ofsótt í þættinum sem hin „bersynduga.“ Auðvitað vissi veðurblíðan á Íslandi á endalok veraldarinnar af mannavöldum, hvað annað? Nú í hamfaraveðrinu fyrir jólin var það einnig sprottið af mannavöldum, endalok jarðarinnar blöstu við. Gamla fólkið sagði gjarnan: „Það er ekkert nýtt undir sólinni.“ Nú er ég gamall sem á grönum má sjá og ég hef lifað mörg svona veður, hlý sólskinssumur og harða storma vetrarvindanna.
Páll Bergþórsson talar af visku öldungsins
Ég vil þó fagna vakningu unga fólksins og baráttu Gretu Thunberg. Sú barátta vinnur gegn brjálæðislegri græðgi og gegn öfgum hamfaraflutninga og sóun samtímans, verði hún ekki að hamfarahræðslu. Okkur ber að draga úr of mikilli neyslu og margt er hægt að gera til að vinna gegn hlýnun jarðarinnar. Ég vil taka undir hógvær orð sem Páll Bergþórsson veðurfræðingur setti inn á „Fasbókina,“ sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap. Páll segir: „Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa.“ Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum, árið 1950, í 8 milljarða, árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar, árið 2090. Og 20 milljarðar, árið 2160.
Páll telur að fjölgunin sé að nálgast það sem jörðin ræður við og að hlýnunin fylgi hverri milljarða aukningu fólks. „Þarna liggur hundurinn grafinn.“ Jörðin ber ekki aukinn mannfjölda og alls ekki þegar Asíu- og Afríkulöndin fara að gera sömu kröfur til lífsnautnar og við gerum í dag. Ætla má að Ísland beri eina milljón manna með góðu en veröldin átta til tíu milljarða manna. Stóri gerandinn er auðvitað iðnbyltingin og óhófið, kolin, jarðolían og gasið, plastið og gerviefnin. Nú nær sjór og gróður að taka upp helming þess koltvísýrings sem berst inn í andrúmsloftið. Hinn helmingurinn safnast fyrir í lofthjúpi jarðar og eykur gróðurhúsaáhrifin. Því er ástand loftslagsmálanna verkefni, sem þarf að leysa, en ekki dauðadómur yfir jörð og mannkyni.

Ég á mér engan betri vísindamann eða spámann til að fylgja í þessu efni en Pál Bergþórsson, sem enn sendir okkur veðurspár við ris sólar á hverjum morgni og veltir vöngum yfir vanda jarðarinnar. Verkefnið er hinsvegar eitt, að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni. Í því sambandi ber að minna á að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum. Draga þarf úr öllu bruðli og muna að sjórinn tekur ekki endalaust við. Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna. En stærsti sigurinn mun vinnast ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt. Lögmálin um köld og hlý veðurtímabil munu engu að síður halda áfram. Páll segir hinsvegar að nú fari að kólna á ný og mannkyni jarðar hætti að fjölga. Þar liggur ákveðin lausn. En gerum það sem við getum gert. Gerum það með bjartsýni og trú. Við búum við hita og rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum og getum bætt okkar stöðu til sjávar og sveita. Heimurinn á tækifæri í sólarorku, vindorku og sjávarfallaorku og Kínverjar eru að farnir að virkja jarðvarmann. Þannig mætti áfram telja.“
Guðni bendir að lokum á að það sé lúxusvandi sem tröllríði háttalagi okkar eins og annarra efnaðra þjóða og gerviefnin og ruslahaugarnir vitni um það. „Grátur í nútíð er framtíðarböl.“