Verslunarrými frátekið á Hafnartorgi fyrir Louis Vuitton, Gucci og Prada

Forsvarsmenn Hafnartorgs hafa tekið frá þrjú rými fyrir alþjóðlegu lúxusverslanirnar Gucci, Louis Vuitton og Prada. Viðræður hafa staðið yfir í tvö ár og fulltrúar merkjanna komið þrisvar í heimsókn hingað til lands.

Þetta kemur fram í máli Helga S. Gunnarssonar, forstjóra fasteignafélagsins Regins, í Fréttablaðinu í dag, en félagið keypti verslunarrýmið við Hafnartorg á hagstæðu verði árið 2014. Heildarfjárfesting Regins í eignunum er um sex milljarðar króna.

„Merkin vildu spyrða sig saman í þessum samningum. Við höfum náð saman um staðsetningu, verð og umfang en það á eftir að skrifa undir samninga. Við teljum að forsvarsmenn merkjanna vilji sjá hvernig Hafnartorgið lítur út þegar það verður tilbúið en lokafrágangur er eftir. Við getum tekið á móti þeim með skömmum fyrirvara,“ segir Helgi.

Verslunarrýmin verða 15 til 17. Verslun H&M og H&M Home hefur þegar opnað, sama á við um verslunina Collections sem selur Boss, Polo, Sand og Emporio Armani. NTC mun opna GK Reykjavík, innan skamms opnar svo COS sem selur vandaðar flíkur og er í eigu H&M.

Þá hyggst Michelsen flytja sig á Hafnartorgið af Laugavegi, auk þess sem gleraugnaverslunin Optical Studio opnar fljótlega á Hafnartorgi og mun bjóða upp á flest þekktustu merki heims.