Versta pizzan á ævinni

Komið ef þið þorið. Ljósmynd birt með leyfi Einars Kristins Einarssonar.

Veitingastaðurinn Bazilika Reykjavík skorar á vegfarendur í Austurstræti að koma og fá sér „verstu pizzuna sem einhver gaur á Tripadvisor“ hafði borðað á ævinni, skv. skilti sem staðurinn hefur sett út á götu.

Viljinn hafði samband við staðinn, en þar fengust þær upplýsingar að margir standist ekki áskorunina og hreinlega verði að koma inn til að reyna við pizzuna illræmdu, sérstaklega ferðamenn.

Almennt virðist staðurinn þó fá prýðilega dóma á Tripadvisor, eða fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Þannig lítur út fyrir að menn hafi ekki látið eina slæma umsögn slá sig út af laginu, heldur ákveðið að tefla henni djarflega fram í að vekja athygli á staðnum, með góðum árangri.