Verulega tók á alla að sjá hversu illa fólkið var slasað

Brúin yfir Núpsvötn var vettvangur hræðilegs slyss í morgun.

Viljanum hefur borist yfirlýsing frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, vegna hins hörmulega banaslyss sem varð við Núpsvötn í morgun, þar sem staðfest er að þrír létust og fjórir slösuðust alvarlega í umferðarslysi.

„Neyðarlínu barst í morg­un, þann 27. desember 2018 rétt fyrir klukkan tíu til­kynn­ing um að bifreið hefði verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn.  Í ljós koma að jeppabifreið með 7 manns innanborð, að því er talið er, hafa verið ekið í gegn­um brú­ar­hand­riðið. Brúin er mjög há þar sem jeppanum var ekið út af brúnni. Jeppinn hafnaði í áraurunum um 6-7 metrum fyrir neðan brúnna en ekki út í ánni sjálfri.

Lögreglumaður frá Kirkjubæjarklaustri var fyrstur á vettvang og rétt á eftir hjúkrunarfræðingur frá heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri, síðan komu allir tiltækir sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri á vettvang.  Aðstæður voru afar erfiðar á vettvangi.  Aðkoman var hræðileg að þessu slysi að sögn sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga og lækna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU.

Fáliðað var um tíma á vettvangi en fljótlega bættist í bjargir á slysstað þegar bættist í hóp lögreglumanna, heilbrigðsstarfsmanna, sjúkraflutingamanna og björgunarsveitarfólks ásamt slökkviliði með tækjabúnað. Tveir voru fyrir utan bíl þegar komið var að slysstað og fljótlega náðist að losa tvo einstaklinga til viðbótar úr bílnum, en einn þeirra var látinn. Aðrir farþegar í jeppanum vorum rígfastir og mjög illa slasaðir inni í bílnum.

Sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar og læknar komu síðan á vettvang frá Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði og frá Hvolsvelli og sjúkraflutingamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi komu með í þyrlu Landhelgisgæslunnar á vettvang.  Bjarki Vilhjálmur Guðnason sjúkraflutingamaður hjá HSU á Kirkjubæjarklaustri var aðhlynningarstjóri á vettvangi og Þorsteinn Kristinsson lögreglumaður var vettvangsstjóri.

Töluverðan tíma tók að koma búnaði að slysavettvangi að sögn lögreglu vegna ár­bakk­anna. Fjórir voru alvarlega slasaðir og náðist um hádegisbil að flytja þau með þyrlu á Landspítala. Það tók því umtalsverðan tíma að ná hinum slösuðu út úr jeppanum sem var afar illa farinn. Meðal þeirra sem flutt voru á Landspítala voru bæði börn og fullorðnir.  Þau voru með áverka á kvið, höfði og stoðkerfi. Þrír lét­ust í slys­inu og er eitt barn þeirra á meðal. Tveir karlmenn og tvö börn voru flutt með þyrlu á Landspítala.

Fyrir réttu ári síðan, á þriðja degi jóla, var alvarlegt rútuslys í heilbrigðisumdæmi Suðurlands í Eldhrauni vestan við Kirkjubæjarklaustur.  Enn á ný kemur í ljós hve gott og faglegt samstarf milli heilbrigðisstarfsmanna og sjúkraflutinga HSU, lögreglu og björgunarsveita á Suðurlandi skilar framúrskarandi björgunarstarfi við afar erfiðar aðstæður. 

Ljóst er að aðkoman að slysinu við brúna yfir Núpsvötn var afar erfið. Verulega tók á alla hlutaðeigandi björgunaraðila að sjá hversu illa fólkið var slasað. Viðrunarfundur, með aðkomu sálfræðings, verður haldinn í dag á Vík í Mýrdal með þeim aðilum sem komu hinum slösuðu til bjargar. Nauðsynlegt er að skoða hvernig má styrkja bjargir á þessu svæði með sívaxandi umferð ferðamanna og fara yfir búnað og bjargir á fjölsóttasta ferðamannasvæði á Íslandi.

Þess má geta að samhliða þessu erfiða útkalli vegna slyssins voru fjögur önnur erfið bráðaútköll hjá sjúkraflutningum á sama tíma í umdæmi Suðurlands í dag.  Því má lítið út af bregða til að mikið álag skapist hjá viðbragðasaðilum í framlínunni hjá Heilbrigðsstofnun Suðurlands.

Öllum hlutaðeigandi eru færðar þakkir fyrir fumlaus og fagleg vinnubrögð.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.“