Vettvangur lýðræðisins tákn um hægri bylgju í Hollandi

Baudet hefur sagt við hollenska fjölmiðla að hann sé tilbúinn til að vinna með hefðbundnum flokkum í ríkisstjórn, en myndi krefjast stefnubreytingar í ákveðnum málaflokkum, sérstaklega varðandi fjöldainnflytjendastefnu.

Nýr hægri flokkur, andstæður Evrópusambandinu (ESB), undir forystu Thierry Baudet, vann stórsigur í þingkosningunum í Hollandi á miðvikudaginn. Vettvangur lýðræðisins (h. Forum voor Democratie FvD) stökk úr því að hafa tvo fulltrúa í neðri deild, í að verða sá flokkur með flesta fulltrúa á hollenska þinginu, eða samtals 86. Flokkurinn sigraði meira að segja hinn ríkjandi íhaldsflokk, Þjóðarflokk frelsis og lýðræðis (h. Volkspartij voor Vrijheid en Democratie VVD), sem fékk 80 fulltrúa, en hafði áður 89. Kristilegir demókratar féllu úr 89 fulltrúum niður í 74 og flokkur Geert Wilders, Flokkur frelsis og friðar PVV fékk aðeins 41 fulltrúa en hafði áður haft 66.

FvD var stofnaður árið 2016 og þetta eru fyrstu þingkosningar sem hann tekur þátt í á landsvísu. Vinsældir og sigur flokksins nú, voru svo óvæntur, að hann átti jafnvel í erfiðleikum með að manna sætin fyrir sum landsvæðin. Landsvæðabundin þingsæti skv. hollenskum stjórnlögum ná upp í efri deild þingsins, þar sem flokkurinn gæti náði meirihluta sæta, og hefur þar með tekið framúr meirihluta íhaldsflokksins VVD og núverandi ríkisstjórn hefur misst meirihluta sinn.

Baudet hefur sagt við hollenska fjölmiðla að hann sé tilbúinn til að vinna með hefðbundnum flokkum í ríkisstjórn, en myndi krefjast stefnubreytingar í ákveðnum málaflokkum, sérstaklega varðandi fjöldainnflytjendastefnu og eyðslu skattfjár í loftslagsmál.

Til að sýna styrk sinn, krafðist Baudet jafnframt afsagnar nokkurra ráðherra í lykilstöðum, þ.á m. ráðherra innanríkis- og innflytjendamála, í skiptum fyrir samvinnu.

Fyrsta líflátshótunin komin

Kosningarnar sl. miðvikudag voru haldnar aðeins tveimur dögum eftir hryðjuverkaárásina í Utrecht, og er hún talin hafa haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Baudet var gagnrýndur eftir árásina fyrir að halda áfram með kosningabaráttuna, á meðan aðrir felldu niður sína kosningaviðburði. Í kosningaherferð sinni, gagnrýndi Baudet ríkisstjórnina harðlega fyrir að skapa aðstæður sem gætu hafa leitt til árásarinnar, þ.á m. „barnalega og lina“ stefnu um opin landamæri og linkind gagnvart glæpum.

Einnig eru vinsældir Baudet og flokks hans taldar eiga sér rót í stefnu og aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum, svipað og uppruni gulvestunga í Frakklandi.

Hann segir að þrátt fyrir að varað hafi verið við fjöldainnflytjendastefnunni í áratugi, hafi „ekkert breyst og að hundruð þúsunda séu enn að flytjast hingað,“ sagði Baudet við hollenska kjósendur. „Breytum við ekki um stefnu á miðvikudaginn, á þetta [skotárásir o.þ.h.] eftir að gerast miklu oftar.“

Hann gagnrýndi forsætisráðherrann og sagði: „Fólkið sem á að vernda okkur er að steypa okkur í glötun… Áralöng ríkisstjórn undir forystu Rutte hefur skilið landamærin eftir opin, þar sem hundruð þúsunda manna með annan menningarlegan uppruna streymir inn.“

Hollenska blaðið Algemeen Dagblad segir fjölmiðla hafa líkt Baudet, sem er sjónvarpsstjarna, við bandaríska forsetann Donald Trump, sem náði athygli kjósenda í gegnum samfélagsmiðla í stað þess að nota hefðbundnar leiðir ljósvakamiðlanna. Hann er sagður vera vel gefinn furðufugl sem slær um sig með latínu og hefur látið flytja flygil inn á skrifstofuna sína.

Baudet hefur nú þegar fengið það sem túlkað hefur verið sem líflátshótun, en kennari í Islam og arabískum fræðum við Háskólann í Utrecht, skrifaði facebook-færslu sem sagði: „Volkert, hvar ertu?“ og vísaði þar til morðsins á hægri sinnaða stjórnmálamanninum Pim Fortuyn, sem var myrtur af öfga-dýraverndarsinnanum Volkert van der Graaf árið 2002, rétt fyrir kosningar.