Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.
„Verðbólga minnkaði lítillega í febrúar og mældist 6,6%. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað en er líkt og mæld verðbólga enn vel yfir verðbólgumarkmiði. Verðbólguvæntingar eru einnig yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát.
Nýleg endurskoðun Hagstofu Íslands á þjóðhagsreikningum sýnir að hagvöxtur á síðustu árum var meiri en fyrri tölur bentu til. Spennan í þjóðarbúinu virðist því vera umfram það sem áður var talið. Áfram hægir þó á vexti efnahagsumsvifa enda er taumhald peningastefnunnar töluvert.
Óvissa hefur minnkað eftir undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Spennan í þjóðarbúinu gæti þó leitt til þess að launaskrið verði meira en ella. Einnig gætu aðgerðir í ríkisfjármálum aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting.
Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar bankans.