Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu, stendur enn í þingflokki Vinstri grænna. Málið var afgreitt með fyrirvara úr þingflokknum á dögunum til þinglegrar meðferðar, en andstaða VG við málið í fyrravor varð til þess að það dagaði upp í þinginu.
Orri Páll Jóhannesson, þingflokksformaður VG, skýrði frá því á þingi í gær að þótt frumvarpið hafi „nú tekið breytingum til hins betra frá fyrri framlagningu“ geri þingflokkurinn enn fyrirvara við málið.
„Áhyggjur þingflokksins lúta helst að því að ekki sé gengið nógu langt til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna, einna helst þar sem samtímaeftirlit og eftirlit með aðgerðunum þarfnast úrbóta. Að mati þingflokksins teljum við varhugavert að gera stýrihóp um skipulagða brotastarfsemi að endurskoðunaraðila um lögmæti ákvarðana um að viðhafa eftirlit, þar sem sá hópur telst tæplega óháður aðili sem ætla megi að geti endurskoðað lögmæti ákvarðana með fullnægjandi hætti. Þar að auki skortir að mati þingflokksins réttarúrræði til handa borgurum sem telja á sér brotið en það getur skapað hættu á tortryggni borgara í garð yfirvalda, tryggir ekki nægilega lýðræðisleg sjónarmið og grundvöll réttarríkins sem verður að treysta að mati þingflokks VG. Þá þarf að auka skýrleika um varðveislu, vinnslu og eyðingu upplýsinga,“ sagði hann.
Orri Páll sagði þingflokk VG líka enn á frumvarpið þyrfti að taka þeim breytingum í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar að aðkomu dómara verði krafist vegna ákvörðunar um eftirlit gegn einstaklingum vegna afbrotavarna svo tryggja megi réttaröryggi borgaranna. Þingflokkur VG telji það eðlilegan þátt í mótun réttarumhverfisins að grípa til allra þeirra ráðstafna sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttaröryggi borgaranna, þar á meðal koma í kring ferli þar sem öryggisvottaðir dómarar og annað nauðsynlegt starfsfólk komi að málinu.
„Þá teljum við í þingflokki VG að það verði að skoða það gaumgæfilega í þinglegri meðferð málsins hvernig hægt sé að tryggja réttarúrræði handa einstaklingi sem fær tilkynningu um að aðgerðir gagnvart honum voru ólögmætar. Staða einstaklings sem fær slíka tilkynningu um ólögmætt inngrip er óljós og ófullnægjandi að okkar mati eins og frumvarpið stendur nú. Það er brýnt að tryggja raunhæf og virk úrræði handa borgurunum til að geta leitað réttar síns.
Að endingu er brýnt að mati þingflokks VG að takmarkanir verði settar á þær upplýsingar sem safnast á meðan borgari sætir eftirliti, þ.e. á geymslu, varðveislu og notkun upplýsinganna. Að okkar mati í þingflokknum væri til bóta að taka af vafa um reglur um eyðingu, nýtingu, varðveislu og deilingar vegna reksturs miðlægs gagnagrunns,“ sagði Orri Páll ennfremur.
Aðgerðir til að afstýra brotum eða stöðva þau
Frumvarpið um breytt lögreglulög er samið í dómsmálaráðuneytinu og var fyrst lagt fram í fyrra, eins og áður var sagt, en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur nú lagt það fram að nýju með breytingum.
„Endurskoðun þessi byggist á vinnu ráðuneytisins sem staðið hefur yfir undanfarin ár og lýtur að greiningu heimilda lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna og mögulegum úrbótum. Markmið hennar er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða á þessu sviði, einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu.
Löggæsla nú á tíðum snýr ekki síður að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningar upplýsinga. Breytt afbrotamynstur, aukin hætta á hryðjuverkum og útbreiðsla alþjóðlegrar skipulagðrar brotastarfsemi krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Með frumvarpi þessu er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Í því skyni mælir frumvarpið fyrir um heimild lögreglu til að nýta upplýsingar sem hún býr yfir og aflar til greiningar auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að kveða nánar á um þær aðgerðir sem heimilt er að beita í þágu afbrotavarna. Þá er lögreglu veitt sérstök heimild til að hafa eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulögð brotasamtök eða sem sérgreind hætta stafar af fyrir öryggi ríkisins eða almennings. Einnig er kveðið á heimild til haldlagningar að undangengnum dómsúrskurði til að koma í veg fyrir alvarleg brot gegn öryggi ríkisins.
Frumvarpinu er einnig ætlað að efla eftirlit með lögreglu. Annars vegar er mælt fyrir um að embætti ríkislögreglustjóra skuli starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu og að ráðherra skuli skipa gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. Hins vegar er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna með því að fjölga nefndarmönnum og kveða á um að formaður nefndarinnar skuli vera embættismaður í fullu starfi, auk þess sem nefndinni er falið að hafa sérstakt eftirlit með aðgerðum lögreglu í þágu afbrotavarna.
Þá er í frumvarpinu lagt til að starfsemi stýrihóps um skipulagða brotastarfsemi verði lögfest, nauðsynlegar breytingar verði gerðar á 11. gr. a laganna um móttöku erlends lögregluliðs sem og að kveðið verði á um meðferð vopna hjá lögreglu, en ákvæði þess efnis hafa fram til þessa aðeins verið að finna í reglugerð á grundvelli vopnalaga,“ að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.